Körfubolti

Benedikt: Kom mér á óvart að vera boðið starfið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Benedikt og Hannes formaður kampakátir.
Benedikt og Hannes formaður kampakátir. vísir/vilhelm
Benedikt Guðmundsson var í dag ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta til næstu fjögurra ára. Benedikt tók sér drjúgan tíma til þess að íhuga málið áður en hann samþykkti að taka við liðinu.

„Ég veit ekki hvað er lengi og stutt í svona þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég tek slíkt starf að mér. Ég hugsaði þetta í tæpar tvær vikur,“ segir Benedikt en hvað heillaði hann við starfið?

„Ég held að þetta sé spennandi áskorun. Nú er ég aðeins búinn að prófa mig áfram í kvennadeildinni. Ég var ekki að hugsa um þetta starf og það kom mér á óvart er það stóð mér til boða. Ég fann strax að þetta var eitthvað sem heillaði mig. Ég þurfti bara aðeins að melta þetta.“

Benedikt samþykkti að taka við liðinu í gærkvöldi og var svo boðað beint til blaðamannafundar í morgun. Þjálfarinn hefur því ekki haft mikinn tíma til þess að setja sér einhver markmið.

„Ég vil sjá kvennaboltann taka skref fram á við. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Ég held að það sé kostur að ég sé ekki með mikla reynslu í þjálfun hjá konunum. Það er ákveðinn núllpunktur og þarna kemur þjálfari sem er ekki endilega með fyrirfram mótaðar skoðanir á leikmönnum og öðru. Ég reyni að gera þetta á minn hátt og vonandi vilja sem flestar taka þátt í þessum slag með mér.“

Landsliðsþjálfaranum líst mjög vel á efniviðinn sem er til staðar en hans fyrsta verkefni með liðið verða Smáþjóðaleikar í maí.

„Við eigum margar efnilegar stelpur og ég ásamt KKÍ erum að horfa til framtíðar með fjögurra ára samningi. Það er samt engin of ung eða of gömul til þess að spila með liðinu. Það er fín blanda til staðar í dag og sem betur fer eru stelpurnar farnar að spila lengur en áður og jafnvel til fertugs.“


Tengdar fréttir

Benedikt tekur við kvennalandsliðinu

Benedikt Guðmundsson, núverandi þjálfari KR í Domino´s deild kvenna, er tekinn við íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta og mun stýra liðinu í fyrsta sinn á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maílok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×