Körfubolti

Benedikt tekur við kvennalandsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson með Hannesi Jónssyni formanni KKÍ.
Benedikt Guðmundsson með Hannesi Jónssyni formanni KKÍ. Vísir/Vilhlem
Benedikt Guðmundsson, núverandi þjálfari KR í Domino´s deild kvenna, er tekinn við íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta og mun stýra liðinu í fyrsta sinn á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maílok.

Körfuknattleikssambandið hélt blaðamannafund í dag þar sem Benedikt var kynntur til leiks. Hann mun taka við liðinu af Ívari Ásgrímssyni sem hafði þjálfað bestu körfuboltakonur landsins í fimm ár.

Benedikt Guðmundsson mun gera fjögurra ára samning við KKÍ og mun því stýra íslenska landsliðinu í næstu undankeppni fyrir Evrópukeppnina.

Þetta er í fyrsta sinn sem Benedikt Guðmundsson þjálfar A-landslið Íslands en hann hefur gert frábæra hluti með yngri landsliðin á síðustu áratugum og gert þau meðal annars að Norðurlandsmeisturum. Benedikt var líka aðstoðarþjálfari Friðriks Inga Rúnarssonar hjá A-landsliði karla á árunum 2002 til 2003.

Benedikt er einn fárra þjálfara sem hafa unnið bæði Íslandsmeistaratitilinn í karla- og kvennaflokki. Hann hefur líka unnið 1. deildirnar hjá báðum kynjum, síðast 2016 með karlalið Þórs og 2018 með kvennalið KR.

Benedikt gerði karlalið KR að Íslandsmeisturum 2007 og 2009 og þá vann kvennaliðið Íslandsmeistaratitilinn undir hans stjórn vorið 2010.

Benedikt tók aftur við kvennaliði KR fyrir 2017-18 tímabilið og kom liðinu þá upp í efstu deild á ný. Liðið hefur síðan verið í toppbaráttunni á sínu fyrsta tímabili í Domino´s deildinni.

Íslenska kvennalandsliðið ætti að geta teflt fram sínu sterkasta liði á Smáþjóðaleikunum því stelpurnar, sem spila í bandaríska háskólaboltanum og missa af þeim sökum af undankeppni EM á veturna, verða væntanlega til taks í þessu verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×