Handbolti

Reiður Rúnar sló niður vatnsflösku á ritaraborðinu | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar er hér nýbúinn að hrinda vatnsflöskunni á ritaraborðinu við litla hrifningu starfsmanna á borðinu.
Rúnar er hér nýbúinn að hrinda vatnsflöskunni á ritaraborðinu við litla hrifningu starfsmanna á borðinu.
„Ég var bara kallaður hálfviti af tímavarðarborðinu,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, en hann stóð í miklu stappi við ritaraborðið í KA-heimilinu í gær og missti stjórn á skapi sínu.

Þjálfarinn nýtti tækifærið er Anton Gylfi Pálsson dómari leit undan og sló í vatnsflösku á ritaraborðið. Blöðin á borðinu fóru einnig á flug. Anton gaf honum gult spjald þó svo hann hafi auglóslega ekki séð atvikið en mönnum var heitt í hamsi.

Eftir leik átti Rúnar ýmislegt ósagt við mennina á ritaraborðinu og lét þá heyra það. Hálfnaður á leið úr húsinu snéri hann svo aftur við til þess að hella enn frekar úr skálum reiði sinnar. Ekki er annað að sjá en ritaraborðið hafi kallað eitthvað á eftir Rúnari sem snéri reiður til baka.

Þá stökk hornamaðurinn Leó Snær Pétursson í leikinn og dró þjálfarann sinn burt af átakasvæðinu. Skynsamur leikur.

„Það er „crucial“ víti og ritaraborðið fer að skipta sér af þessu. Þetta er ekki hlutlaus framkvæmd á leik,“ sagði Rúnar eftir leikinn en hann segir ritaraborðið hafa kallað hann hálfvita. „Ég vísa þessu til föðurhúsanna en þetta er búið og gert.“

Myndband af þessum látum má sjá hér að neðan en myndirnar koma meðal annars frá okkar mönnum í KA TV og þökkum við þeim kærlega fyrir.

Þetta mál verður svo krufið ítarlega í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í kvöld klukkan 21.15 eða beint á eftir stórleik Vals og Selfoss sem er einnig í beinni á Stöð 2 Sport.



Klippa: Reiðikast Rúnars í KA-heimilinu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×