Handbolti

Rúnar: Þurfum að gyrða okkur í brók ef ekki á illa að fara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar. vísir/daníel
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að sínir menn séu að spila allt of hægan sóknarleik. Það hafi orðið liðinu að falli gegn FH í dag. Stjarnan tapaði með átta marka mun fyrir FH í Olísdeild karla í kvöld.

„Þetta var nokkuð sannfærandi tap. Við vorum alltof hægir og fellur allt í sundur hjá okkur, eitt af öðru. Varnarleikurinn var ágætur í fyrri hálfleik en það fjaraði undan honum líka,“ sagði Rúnar.

„Við gerum líka allt of mörg mistök í seinni hálfleik sem gefur FH færi á að skora mörk úr hraðaupphlaupum sem er þeirra sterkasta vopn. Þeir stjórnuðu leiknum frá a til ö.“

Rúnar segir að það sé sérstakt áhyggjuefni hversu lítill hraði það er í leik Stjörnumanna.

„Við spilum boltanum illa á milli okkar, viljinn til að hlaupa er nánast enginn, allt er gert á hálfum hraða og menn reikna frekar með því að einhver annar geri hlutina fyrir þá. Þetta er í grunninn of hægt og of lélegt.“

Fram undan er bikarhlé á deildinni og Rúnar fagnar því. „Einhvern tímann hefði maður blótað því en það er ágætt að fá það núna. Strákarnir hafa sýnt að þeir geta spilað hraðan bolta og þeir þurfa að gera það aftur. Við þurfum að laga það í þessari pásu.“

Stjarnan hefur nú tapað fjórum leikjum í röð og Rúnar segir ljóst að það er fallbarátta framundan, nema að eitthvað breytist verulega hjá hans mönnum.

„Mér varð ljóst eftir tapið gegn ÍBV fyrir jól að þetta væri ekki bara spurning um að komast í úrslitakeppnina, heldur að losna við fallbaráttu. Nú höfum við ekki verið að spila vel í nokkuð langan tíma og við þurfum að gyrða okkur í brók ef ekki á illa að fara.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×