Viðskipti innlent

Útskýrir tilboð til Reykjavíkurdætra og lofar uppgjöri við listamenn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Víkingur Heiðar Arnórsson nýr framkvæmdastjóri Secret Solstice, tónlistarhátíðar sem haldin er í Laugardalnum, segir að það verði gert upp við alla listamenn sem fengu ekki borgað fyrir að hafa komið fram á síðustu hátíð.
Víkingur Heiðar Arnórsson nýr framkvæmdastjóri Secret Solstice, tónlistarhátíðar sem haldin er í Laugardalnum, segir að það verði gert upp við alla listamenn sem fengu ekki borgað fyrir að hafa komið fram á síðustu hátíð. Secret Solstice

Víkingur Heiðar Arnórsson nýr framkvæmdastjóri Secret Solstice, tónlistarhátíðar sem haldin er í Laugardalnum, segir að það verði gert upp við alla listamenn sem fengu ekki borgað fyrir að hafa komið fram á síðustu hátíð.

Félagið Solstice Productions sem hefur rekið Secret Solstice hátíðina fram til þessa á eftir að gera upp við ýmsa listamenn sem komu fram á hátíðinni síðasta sumar. Forsvarsmenn segja reksturinn hafa fengið illa og þar hafi slæmt veður gert útslagið.

Sjá nánar: Hagfræðingur búsettur á Kanarí kemur Secret Solstice til bjargar

Live events ehf er nýtt félag sem mun standa að hátíðinni næsta sumar og halda Secret Solstice í sjötta skipti dagana 21. – 23. júní. Víkingur Heiðar segist ætla að borga öllum listamönnum sem Solstice Productions náði ekki að gera upp við frá síðustu hátíð.

Það er Guðmundur Hreiðarsson Viborg, hagfræðingur á sjötugsaldri búsettur á Kanaríeyjum, sem er skráður fyrir Live events ehf. 

Guðmundur tjáði Vísi í nóvember að uppgjör hátíðarinnar í fyrra heyrði ekki undir sig. Það væri í höndum þeirra sem ráku þá hátíð að gera hana upp, fyrrnefnt félag Solstice Productions. Félag Jóns Ólafssonar, oft kenndur við Skífuna og Iceland Glacier, og barna hans. 

Annað er að heyra á framkvæmdastjóranum Víkingi. Hann segist stefna að því að gera upp við listamennina fyrir næstu Secret Solstice hátíð. Hann hafi þó ekki viljað lofa upp í ermina á sér með því að gefa upp óraunhæfa tímasetningu.

Rappsveitin Reykjavíkurdætur var ekki sátt við tilboð um að fá að hita upp fyrir Pussy Riot frítt.

Bauð Reykjavíkurdætrum að spila ókeypis í góðu slotti

Reykjavíkurdætur voru fremur ósáttar með tilboð sem Víkingur bauð þeim á dögunum. Í færslu sem hljómsveitin birti á Twitter í gær segir að forsvarsmenn hátíðarinnar hafi ekki enn borgað þeim fyrir að hafa komið fram síðasta sumar og að nú hafi þeir boðið þeim að spila á hátíðinni næsta sumar án greiðslu. Þær sögðust þá einnig hafa verið ósáttar með plássið sem þeim var úthlutað á hátíðinni í fyrra.

Víkingur segir að þetta sé rétt en að tístið segi aðeins hálfa söguna. Hann hafi sjálfur ekki komið nálægt rekstri hátíðarinnar síðasta sumar en að nýir rekstraraðilar ætli samt sem áður að gera upp við listamennina. Starfsmenn á Secret Solstice og tónleikum Guns'N'Roses, hafa sömuleiðis kvartað yfir því að hafa ekki fengið greitt.

Víkingur segir að það sé rétt að hann hafi boðið Reykjavíkurdætrum að spila án þess að fá greitt en tekur fram að það hafi verið boð fyrir ákveðið pláss sem sé mikils virði; á sviðinu Gimli á undan rússnesku hljómsveitinni Pussy Riot sem er aðalnúmer kvöldsins.

Tilboðið hafi þannig verið að fá að spila á besta tíma og besta stað. Hann segir að það sé í sjálfu sér mikils virði að fá að spila þegar flestir áhorfendur eru viðstaddir. Víkingur segir að með þessu tilboði hafi hann einnig verið að reyna að bæta Reykjavíkurdætrum upp fyrir síðustu hátíð því þá hafi þær ekki fengið nógu gott pláss í dagskránni.

Þá hefði hann tjáð þeim að ef þeim litist ekki á tilboðið gæti hann fundað með þeim á ný og fundið slott sem greiðsla fylgdi.

Víkingur segir að hann sé mjög bjartsýnn og jákvæður og segir að það sé hans hlutverk að reyna að gera Secret Solstice sjálfbæra og að árlegum lið fyrir Íslendinga.

Ýmsar breytingar verða á Secret Solstice frá fyrri árum samkvæmt samningi sem kynntur hefur verið í borgarráði. Enn á þó eftir að skrifa undir samninginn eftir því sem Vísir kemst næst. 

Uppfært klukkan 11:08 með þeim upplýsingum frá Víkingi að Reykjavíkurdætrum standi til boða að spila á öðrum tíma og fá greiðslu fyrir.

Vísir tekur ábendingum fagnandi á ritstjorn(hja)visir.is. Fullum trúnaði heitið.


Tengdar fréttir

Robert Plant á Secret Solstice

Secret Solstice hátíðinni fer fram í Laugardalnum í sjötta skiptið þann 21.-23. júní. Forsvarsmenn hátíðarinnar voru að senda frá sér nýjustu tilkynningu um það hverjir munu koma fram og spila fyrir tónlistarþyrsta landsmenn næsta sumar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×