Skoðun

LÍN - Besta lánasjóðskerfið á Norðurlöndunum

Sólveig María Árnadóttir skrifar
Íslenskir stúdentar eru nokkuð sérstakur hópur. Ástæða þess er sú að samsetning okkar er nokkuð frábrugðin því sem gengur og gerist. Eurostudent könnunin frá árinu 2018 hefur að geyma mikilvæg gögn sem varpa ljósi á það sem gerir íslenska stúdenta nokkuð frábrugðna öðrum. Það eru þó nokkur atriði sem ég hef sérstakar áhyggjur af, en ég trúi því að bætt lánasjóðskerfi myndi taka á þeim.

Það er áhyggjuefni hve margir stúdentar raunverulega vinna samhliða námi sínu, fullt háskólanám er full vinna. Um 71% svarenda íslenskra stúdenta í könnuninni segjast vinna til þess eins að hafa efni á háskólanámi sínu. Þá treysta íslenskir stúdentar lítið á tekjur frá námslánum eða styrkjum miðað við stúdenta á Norðurlöndunum.

Kennarar í háskólum gagnrýna það gjarnan, eðlilega, að stúdentar vinni mikið samhliða námi. Það virðist þó ekki bitna á þeim tíma sem stúdentar verja í nám sitt. Í Eurostudent könnuninni kemur fram að íslenskir stúdentar verja meiri tíma í nám utan kennslu og við launuð störf en nemendur annarra þjóða, þrátt fyrir að svipaður tími fari í skipulagðar kennslustundir. Þetta er athyglisvert, og má velta því fyrir sér hvort að íslenskir stúdentar hafi almennt fleiri tíma í sólarhringnum en aðrir stúdentar?

Hvernig gengur þetta upp? Er virkilega gerlegt að vera í fullu háskólanámi og vinnu samhliða því? Er þess ekki krafist að stúdentar mæti í kennslustundir? Fjarnám sem háskólar bjóða upp á gerir þetta púsluspil gerlegt. Háskólinn á Akureyri býður upp á sveigjanlegt nám og hefur námsfyrirkomulagið notið mikilla vinsælda síðustu ár. Lykiltölur HA frá árinu 2018 sýna að af 2.389 stúdentum sem stunda nám við háskólann, eru 1.342 stúdentar skráðir í fjarnám. Reynslan sýnir að margir skrá sig í fjarnám til þess að geta púslað öllu saman, vinnu, fjölskyldulífi og námi. Þá er allt nám við háskólann orðið sveigjanlegt og því má gera ráð fyrir því að hluti þeirra stúdenta sem skráðir eru í staðarnám mæti þó ekki í kennslustundir innan veggja háskólans á hverjum degi og séu að sinna öðrum störfum.

Þrátt fyrir að sveigjanlega námið geri það að verkum að púsluspilið gangi upp þýðir það þó ekki að leikurinn gangi áfallalaust fyrir sig. Kröfurnar eru nefnilega ekkert minni þegar kemur að sveigjanlegu námi. Ef eitthvað er, eru kröfurnar meiri þar sem að námsfyrirkomulagið krefst agaðra vinnubragða, sjálfstæðis og skipulags. Þetta púsluspil, fullt háskólanám, vinna, félagslíf, félagsstörf og allt annað sem þarf að púsla saman, hefur áhrif. Púsluspilið getur haft áhrif á námsárangur stúdenta og getur orðið til þess að stúdentar ljúki námi sínu á lengri tíma en ætlað er. Þá hefur vinna samhliða fullu háskólanámi áhrif á álag og andlega heilsu stúdenta, sem er áhyggjuefni. Það er sláandi að 15% íslenskra svarenda í Eurostudent könnuninni glími við andleg veikindi, en meðaltalið er 4% í öðrum Eurostudent löndum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði á Alþingi 24. janúar síðastliðinn að hækka eigi bæði framfærslu LÍN og frítekjumarkið en það er akkúrat það sem stúdentahreyfingarnar hafa endalaust verið að berjast fyrir. Þá sagði Lilja jafnframt ,,ég get lofað Alþingi því að við munum fá eitt besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum“. Það eru afar ánægjuleg tíðindi og verði það raunin, geta íslenskir stúdentar vonandi loks farið að treysta á LÍN. Besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum myndi gera það að verkum að stúdentar þyrftu ekki að vinna samhliða námi til þess að fjármagna nám sitt, í eins ríkum mæli og raunin er í dag. Þá mun besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum væntanlega hafa þær afleiðingar að stúdentar klári nám sitt frekar á settum tíma. Og mikilvægast af öllu, það mun hafa jákvæðar afleiðingar á andlega heilsu stúdenta sem munu geta treyst á LÍN í stað þess að þurfa að púsla fullu háskólanámi og vinnu saman, með álaginu sem því fylgir.

Sólveig María Árnadóttir

Formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri

Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN




Skoðun

Sjá meira


×