Herdís Gunnarsdóttir, fráfarandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs Reykjalundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.
„Herdís hefur margþætta reynslu af rekstri og stjórnun í heilbrigðiskerfinu. Hún var forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá 2014 en HSU er ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins með 500 starfmenn á 10 starfsstöðvum.“ segir í tilkynningu frá Reykjalundi.
Herdís lauk BSc-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og meistaraprófi í hjúkrun frá sama skóla árið 2001. Árið 2009 lauk Herdís MBA-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ.
Áður vann hún um árabil að margvíslegum verkefnum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, m.a. sem verkefnastjóri og klínískur ráðgjafi hjá stjórn heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar, verkefnastjóri á þróunarskrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar, verkefnastjóri mannauðs- og gæðamála hjá Barnaspítala Hringsins og sem hjúkrunardeildarstjóri á barnaskurðdeild og dagdeild. Hún hefur verið klínískur lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ frá 2014.
„Það er mikill fengur fyrir Reykjalund að fá Herdísi í forystusveit okkar. Umfangsmikil reynsla hennar af rekstri og stjórnun heilbrigðisstofnana auk djúprar sérfræðiþekkingar mun nýtast við áframhaldandi faglega og þjónustulega uppbyggingu Reykjalundar á næstu árum,“ segir Birgir Gunnarsson, forstjóri Reykjalundar.
Herdís tekur við starfinu þann 1. október en degi fyrr lýkur hún störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Fréttin var uppfærð klukkan 12:46.

