Lyfja hefur náð samkomulagi við Árbæjarapótek um kaup á rekstri apóteksins.
Þetta kemur fram í tilkynningu og eru kaupin sögð gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Árbæjarapótek hefur starfað frá árinu 1971.
Haft er eftir Kristjáni Steingrímssyni lyfsala í Árbæjarapóteki að þetta séu tímamót fyrir sig. „Ég á eftir að sakna þess góða starfsfólks sem verður áfram hjá apótekinu sem og okkar viðskiptavina.“
Lyfja hóf starfsemi sína með opnun Lyfju í Lágmúla árið 1996. Eftir kaupin rekur Lyfja 46 apótek og útibú víða um land með tæplega 400 starfsmenn.
