Viðskipti innlent

Loka Ali Baba í miðbænum en leita nýrrar staðsetningar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Yaman Brikhan, eigandi Ali Baba.
Yaman Brikhan, eigandi Ali Baba. Vísir/ Andri
Veitingastaðnum Ali Baba við Veltusund í miðbæ Reykjavíkur var lokað í byrjun mánaðar. Eigendur leita nú nýrrar staðsetningar í miðbænum og vonast til að opna staðinn aftur með vorinu.

Ali Baba hefur staðið við Veltusund í nokkur ár og boðið viðskiptavinum sínum upp á fjölbreytt úrval matargerðar, allt frá shawarma-vefjum upp í pítsur. Greint var frá því á Facebook-síðu staðarins að skellt yrði í lás við Veltusund 2. janúar og hefur staðurinn verið lokaður síðan þá.

Yaman Brikhan eigandi Ali Baba segir í samtali við Vísi að ástæða lokunarinnar sé einföld: samningur hans við leigusalann hafi runnið út nú í janúar.

„Samningurinn minn rann út og ég ákvað að að finna nýjan stað. En einnig vegna þess að nálægt mér eru fleiri staðir sem selja svipaðan mat,“ segir Yaman en Ali Baba stendur mitt innan um fjölbreytta flóru austurlenskrar matargerðar en þar má nefna veitingastaðinn Mandí í næsta húsi.

Yaman segist aðspurður hafa nokkrar nýjar staðsetningar í miðbænum í huga en gefur ekkert upp í þeim efnum að svo stöddu.

„Við vonumst til að geta opnað nýja staðinn innan skamms, vonandi í apríl eða maí.“

Svöngum viðskiptavinum er í millitíðinni bent á útibú Ali Baba í Hamraborg og Spönginni, sem standa enn opin.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.