Viðskipti innlent

Kortaþjónustan gaf út 250 milljóna skuldabréf til hluthafa

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar
Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar
Kortaþjónustan gaf í síðasta mánuði út víkjandi skuldabréf með breyti­rétti í hlutafé fyrir 250 milljónir króna til hluthafa kortafyrirtækisins. Bréfin, sem bera sjö prósenta fasta vexti, eru til sjö ára.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, segir í samtali við Markaðinn að útgáfa bréfanna sé hluti af breytingum á efnahagsreikningi fyrirtækisins.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfaflokksins, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er hverjum og einum skuldabréfaeiganda heimilt allt fram til lokagjalddaga í október árið 2025 að breyta kröfu sinni að heild eða hluta, það er höfuðstól, verðbótum og áföllnum vöxtum, í hlutabréf í Kortaþjónustunni. Kjósi skuldabréfaeigandi að nýta sér breytiréttinn hefur stjórn kortafyrirtækisins þrjátíu daga til þess að gefa út nýja hluti í fyrirtækinu.

Sem kunnugt er keyptu Kvika banki og hópur einkafjárfesta Kortaþjónustuna á eina krónu í fyrra og lögðu félaginu um leið til nærri 1.500 milljónir í nýtt hlutafé. Kortafyrirtækið stóð frammi fyrir alvarlegum lausafjárvanda í kjölfar greiðslustöðvunar Monarch Airlines í október í fyrra en fyrirtækið var á meðal átta fyrirtækja sem sáu um færsluhirðingu fyrir flugfélagið.

Kvika er stærsti hluthafi Kortaþjónustunnar með um 41 prósents hlut en fjárfestingarfélagið Óskabein, sem er meðal annars stór hluthafi í VÍS, er sá næststærsti með 10 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×