Viðskipti erlent

Ghosn rekinn úr stjórn Nissan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Carlos Ghosn.
Carlos Ghosn. Getty/Junko Kimura-Matsumoto
Japanski bílaframleiðandinn Nissan rak í dag Carlos Ghosn sem stjórnarformann fyrirtækisins. Ghosn var handtekinn í Tókýó á mánudag vegna gruns um fjármálamisferli. Hann hefur stýrt Nissan í tæpa tvo áratugi við áður góðan orðstír.

Talið er að Ghosn og Greg Kelly, annar stjórnandi bílarisans sem einnig var rekinn í dag, hafi um árabil vantalið tekjur sínar í yfirlýsingum til japönsku kauphallarinnar til að fela greiðslur sem þeir fengu. Bæði Ghosn og Kelly eru enn í haldi lögreglu í Tókýó.

Ghosn er einnig stjórnarformaður og forstjóri Renault og stjórnarformaður Mitsubishi. Þá er Ghosn forstjóri og stjórnarformaður bandalags fyrirtækjanna þriggja, undir stjórn Ghosn. Hann var vel liðinn eftir að hann stýrði Nissan úr fjárhagskröggum sem leiddu næstum því til gjaldþrots fyrirtækisins.

BBC hefur eftir japönsku fréttaveitunni Kyodo að Hiroto Saikawa framkvæmdastjóri Nissan muni taka tímabundið við stöðu stjórnarformanns.


Tengdar fréttir

Óvissa um framtíð bílabandalagsins

Handtaka Carlos Ghosn, stjórnarformanns Nissan, Renault og Mitsubishi, getur veikt 20 ára bandalag bílaframleiðendanna þriggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×