Viðskipti innlent

Viðskipti með bréf í Icelandair stöðvuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugvél Icelandair hefur sig til flugs.
Flugvél Icelandair hefur sig til flugs. Vísir/Vilhelm
Kauphöllin hefur stöðvað öll viðskipti með bréf í Icelandair Group. Hvorki er hægt að kaupa né selja bréf í flugfélaginu af þeim sökum. 

Viðskipti með bréfin voru stöðvuð klukkan 10:21 í morgun að beiðni Fjármálaeftirlitsins (FME). Þá námu viðskipti það sem af var degi, þ.e. þær tuttugu mínútur sem opið var fyrir viðskipti með bréfin, 25 milljónum króna. Hafði gengi á bréfum flugfélagsins hækkað um 1,88 prósent í verði. Raunar er Icelandair Group eina félagið í Kauphöllinni sem hefur hækkað það sem af er degi.

Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri Kauphallar Íslands, segir í samtali við Vísi að viðskipti með bréfin hafi verið stöðvuð að beiðni FME. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið, það er hvers vegna slík beiðni barst, og þá er heldur ekki hægt að segja til um að svo stöddu hvenær opnað verður fyrir viðskipti á ný.

Icelandair Group keypti þann 5. nóvember allt hlutafé í flugfélaginu WOW Air. Kaupin bíða samþykkis Samkeppniseftirlitsins, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykkis á hluthafafundi Icelandair Group sem fyrirhugaður er á föstudaginn.

Fréttastofa hefur sent Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn vegna stöðvunarinnar. Ekki náðist í Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:13.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×