Viðskipti innlent

Segja Seðlabankann hafa beðið afhroð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson.
Þorsteinn Már Baldvinsson. Vísir/fréttir Stöðvar 2
Forsvarsmenn útgerðarfyrirtækisins Samherja telja að Seðlabankinn hafi „beðið afhroð“ eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að fimmtán milljóna króna sekt Seðlabanka Íslands á hendur Samherja vegna brota á reglum um gjaldeyrismál væri ógild.

Þetta kemur fram í bréfi sem Þorsteinn Már Vilhjálmsson og Kristján Vilhelmsson, stjórnendur Samherja sendu á starfsmenn fyrirtækisins í dag en afrit var einnig sent fjölmiðlum.

„Með þessum dómi lýkur endanlega tæplega sjö ára aðför Seðlabankans á hendur Samherja. Öllum fullyrðingum og sökunum Seðlabankans á hendur Samherja og starfsfólki okkar hefur verið hnekkt og bankinn beðið afhroð,“ segir í bréfinu.

Adraganda málsins á rekja allt aftur til ársins 2010 þegar Seðlabankinn hafði til rannsóknar ætluð brot Samherja á reglum um gjaldeyrismál um skilaskyldu.

Grunur lék á að Samherji hefði brotið gegn þessum reglum og aflaði Seðlabankinn því heimildar til húsleitar og haldlagningar hjá Samherja og nítján öðrum félögum honum tengdum. Húsleitin fór fram á starfsstöð Samherja í mars 2012.

Í bréfinu segir að Kristjáni og Þorsteini Má hafi þótt það þungbært að sitja undir „ásökunum jafn valdamikillar stofnunar og Seðlabanka Íslands,“ en að þeim sé efst í huga þakklæti í garð starfsmanna félagsins sem hafi staðið þétt við bakið á stjórnendum fyrirtækisins undanfarin ár.

„Við unnum ásamt ykkur heiðarlega og samviskusamlega að rekstri okkar fyrirtækis á tímum sem eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Samstaða ykkar hjálpar okkur að halda áfram þegar að okkur er sótt.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×