Viðskipti innlent

Hæpið krepputal þegar tölur sýna metfjölda ferðamanna

Kristján Már Unnarsson skrifar

Aldrei í sögunni hafa jafnmargir ferðamenn heimsótt Ísland eins og í sumar og árið í heild stefnir sömuleiðis í að verða metár; með 1,6 milljónir ferðamanna frá áramótum, sem er 3,4 prósenta fjölgun frá sama tíma í fyrra. Tölur um þetta voru birtar í fréttum Stöðvar 2. 

Miðað við umræðuna að undanförnu mætti stundum halda að kreppa væri skollin á í ferðaþjónustu á Íslandi. Tölurnar sem Ferðamálastofa birti fyrir helgi sýna hins vegar að þrír mikilvægustu mánuðirnir, júní, júlí og ágúst, hafa aldrei verið jafn fjölmennir eins og nú, og það sem af er ári hafa aldrei jafn margir ferðamenn heimsótt Ísland.

Tölur Ferðamálastofu sýna brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Það hefur þó dregið úr fjölgun ferðamanna, en hún hefur verið gríðarleg undanfarin sumur; 24 prósent sumarið 2015, 31 prósent 2016, 17 prósent í fyrra en í sumar er fjölgunin 1,4 prósent. Það er þó ekkert til að bölsótast yfir, að mati ferðamálastjóra, enda er árið til þessa það besta frá upphafi í fjölda ferðamanna. 

„Jú, það er lítilsháttar aukning, það sem af er þessu ári, og það er ágætt. Ekki mikið, en aðeins aukning, það er rétt,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson. 

Mældar eru brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli. Sumarið 2014, í júní, júlí og ágúst, voru þær 408 þúsund, 507 þúsund sumarið 2015, 664 þúsund sumarið 2016, talan fór í fyrra upp í 777 þúsund og þetta sumarið upp í 788 þúsund, en það er 93 prósenta fjölgun á aðeins fjórum árum. 

„Það þarf hins vegar að skoða þessar tölur í samhengi við aðrar tölur, og þá helst gistináttatölur. Þar erum við að sjá smásamdrátt. En allt tal um að það sé skollin á kreppa í ferðaþjónustu, það er ekki rétt.“

Ferðamenn ganga um borð í farþegabát Sjóferða Hafsteins og Kiddýjar á Ísafirði. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Skarphéðinn tekur fram að því fylgi áskoranir að hafa mjög sterka krónu. Ferðamenn stoppi skemur og fari síður langt út á land. 

„Miðað við tölur um júlí, þá er ekki samdráttur á Suðurlandi, eða höfuðborgarsvæðinu, eða á suðausturhorninu. Hins vegar eru menn að sjá samdrátt í gistingu þar sem lengra er frá höfuðborgarsvæðinu; Austurland, Vestfirðir, Norðurland víða. Þetta er eitthvað sem er áhyggjuefni og menn þurfa að hugsa til sóknar í því sambandi,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.