Erlent

Trump-stjórnin vill liðka fyrir losun öflugrar gróðurhúsalofttegundar

Kjartan Kjartansson skrifar
Jarðgas er brennt við olíupumpur í Nevada. Metan er ein öflugasta gróðurhúsalofttegundin í lofthjúpi jarðar.
Jarðgas er brennt við olíupumpur í Nevada. Metan er ein öflugasta gróðurhúsalofttegundin í lofthjúpi jarðar. Vísir/AP

Bandaríkjastjórn ætlar að afnema umhverfisreglur til þess að gera orkufyrirtækjum auðveldara að losa gróðurhúsalofttegundina metan út í andrúmsloftið. Metan, sem er enn öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, lekur í miklum magni frá olíu- og gasborholum.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA) ætlar að kynna breytingar á reglum sem samþykktar voru í tíð Baracks Obama fyrrverandi forseta og veikja þær verulegar. Reglurnar voru settar eftir að ljóst varð að gríðarlegt magn metans læki út í andrúmsloftið, ekki síst frá gaslindum sem hafa verið nýttar í stórum stíl í Bandaríkjunum undanfarin ár.

Með breytingunum er slakað verulega á kröfum um að orkufyrirtækin fylgist með og stoppi metanleka, að því er segir í frétt New York Times. Innanríkisráðuneytið er einnig sagt ætla að afnema reglur sem bönnuðu fyrirtækjunum að sleppa metaninu viljandi og brenna það við boranir.

Búist er við því að reglubreytingarnar verði kynntar strax í þessari viku. Orkufyrirtækin hafa lengi kvartað undan því að reglurnar væru of dýrar og íþyngjandi.

Geta farið eftir enn slakari reglum

Metan er ein öflugasta gróðurhúsalofttegundin í lofthjúpi jarðar, um tuttugu og fimm sinnum öflugri en koltvísýringur en þó skammlífari í andrúmsloftinu. Um þriðjungur metanlosunar manna kemur frá olíu- og gasvinnslu.

Samkvæmt nýju útgáfunni af reglunum þurfa orkufyrirtækin aðeins að fylgjast með lekum einu sinni á ári, jafnvel á tveggja ára fresti í sumum tilfellum, í stað á hálfs árs fresti. Þá fá fyrirtækin tvöfalt lengri tíma til að gera við lekana, sextíu daga í stað þrjátíu áður.

Þá heimila reglurnar fyrirtækjunum að fara frekar eftir metanlosunarreglum einstakra ríkja frekar en alríkisreglunum. Sum ríki eins og Texas eru með losunarreglur sem eru enn rýmri en alríkisreglurnar.

Með tilkynningunni um afnám reglnanna um losun metans hefur ríkisstjórn Donalds Trump forseta lýst því yfir að hún ætli að veikja allar helstu loftslagsaðgerðir Bandaríkjanna frá því í tíð Obama. Áður hefur hún sett fram tillögur um að slaka á kröfum til kolaorkuvera og um sparneytni bensín- og dísilbíla.

Trump ætlar einnig að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu um leið og það verður fyrst hægt árið 2020.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.