Fótbolti

Landsliðskona kastaði upp eftir Þýskalandsleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. Vísir/Getty

Íslensku stelpurnar keyrðu sig algjörlega út í leiknum mikilvæga á móti Þýskalandi á Laugardalsvellinum á laugardaginn.

Það mun því reyna mikið á þær sjálfar og starfsliðið við að ná fullri endurheimt fyrir Tékkaleikinn sem fer fram á sama stað á morgun.

Einn af þeim leikmönnum sem eru tæpar fyrir Tékkaleikinn er Rakel Hönnudóttir. Rakel átti mjög erfitt eftir leikinn.

Rakel spilaði í 84 mínútur en fór þá af velli fyrir Guðrúnu Arnardóttur.

Rakel fékk fyrst krampa en svo fékk hún mígrenikast og kastaði upp.

„Rakel lenti á vegg með líkamlega þáttinn. Hún kláraði allar orkubirgðar, fékk mígrenikast um kvöldið og kastaði upp. Það getur verið erfitt að fylla á tankinn og við sjáum hvað hún á af orku í dag," sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í dag.

Rakel Hönnudóttir spilar með sænska liðinu Limhamn Bunkeflo. Hún er einn reyndasti leikmaður íslenska liðsins enda orðin 29 ára gömul og með 94 landsleiki á bakinu.

Það yrði því slæmt að missa þennan reynslubolta út fyrir leikinn á móti Tékkum . Íslensku stelpurnar verða að vinna til að eiga ennþá möguleika á því að komast á HM í Frakklandi 2019 en þær myndu þá tryggja sér sæti í umspilinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.