Viðskipti innlent

Framleiðendur grípa til verðhækkana

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Ölgerðin hefur hækkað verð um 6,8 prósent í ár vegna verðlagshækkana og launaþróunar. Fréttablaðið/?Anton Brink
Ölgerðin hefur hækkað verð um 6,8 prósent í ár vegna verðlagshækkana og launaþróunar. Fréttablaðið/?Anton Brink

Fyrirtæki hafa gripið til uppsagna og verðhækkana til að mæta auknum kostnaði sem meðal annars kemur til vegna hárra launa í alþjóðlegum samanburði.

Nú síðast upplýsti Ölgerðin að hún muni hækka verð á framleiðsluvörum um 2,9 prósent um miðjan september vegna verðlagshækkana og launaþróunar.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóir Félags atvinnurekenda.

Það verður í annað sinn á árinu sem fyrirtækið hækkar verð en í byrjun árs nam hækkunin 3,9 prósentum, samanlagt er því hækkunin 6,8 prósent.

Coca-Cola á Íslandi hækkaði verð á sínum framleiðsluvörum um 3,3 prósent 1. júlí síðastliðinn vegna innlendra kostnaðarhækkana, eins og það var orðað.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að alþjóðleg samkeppnisstaða íslenskra framleiðslugreina fari versnandi vegna hás launakostnaðar.

„Laun hafa hækkað skarpt á undanförnum árum. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa beðið í lengstu lög með að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið og geta margir hverjir ekki beðið lengur. Það getur hver sem er séð að frekari launahækkanir sem ekki er innistæða fyrir munu fara beint út í verðlag,“ segir hann.

Ásgeir Jónsson, forseti Hagfræðideild Háskóla Íslands.

Iðnaður á undir högg að sækja

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, segir að almennt séð eigi iðnaður á Íslandi undir högg að sækja vegna síhækkandi kostnaðar og samkeppni við innfluttar vörur. „Þekkt iðnaðarfyrirtæki eins og Plastprent og Kassagerðin hafa horfið. Hátt gengi krónu og miklar launahækkanir á undanförnum árum eru Þrándur í Götu þeirra.“

Að hans sögn eiga þau fyrirtæki sem framleiða þekkt vörumerk er njóta neytendatryggðar hægara um vik að fleyta kostnaðarhækkunum í verðlag. „Þau fyrirtæki sem ekki framleiða vörur sem studd eru af þekktum vörumerkjum eiga í mestum erfiðleikum með að hækka verð. Þau fyrirtæki standa því veikar. Það kæmi mér ekki á óvart að í þessu árferði reyni fyrirtæki sem hafa markaðsvald í krafti þekktra vörumerkja með neytendatryggð, eins og Ölgerðin og Vífilfell, að vinna með það,“ segir Ásgeir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Uppsagnir fyrirtækja

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að mörg fyrirtæki hafi gripið til hagræðingaraðgerða og sagt upp starfsfólki síðastliðið ár. Oddi sagði 86 starfsmönnum upp við upphaf árs þegar fyrirtækið hætti innlendri framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum, CCP sagði upp 30 starfsmönnum veturinn 2017 og Ölgerðin sagði upp 15 starfsmönnum fyrir um ári.

„Um þessar mundir er gerð enn ríkari krafa um hagræðingu en áður. Hættan er sú að framleiðsla og störf fari úr landi ef þessi þróun heldur áfram, “ segir hann.

Sigurður bendir á að íslensk framleiðslufyrirtæki eigi yfirleitt í erlendri samkeppni. Hvort sem það er í útflutningi eða í samkeppni við erlendar vörur hérlendis. Efnahagslegur óstöðugleiki og sveiflur í gengi krónu geri fyrirtækjum erfitt fyrir að skipuleggja reksturinn til lengri tíma.

„Samspil launahækkana og gengisþróunar á undanförnum árum hafa gert það að verkum að kostnaður hefur hækkað mikið. Laun mæld í erlendri mynt hafa hækkað gríðarlega og eru há í alþjóðlegum samanburði. Við bætist að skattar á fyrirtæki hérlendis eru háir í alþjóðlegum samanburði. Þar munar mestu um tryggingagjaldið sem er skattur á laun. Auk þess skapaði lágt raforkuverð hérlendis landinu samkeppnisforskot en nú hefur dregið úr þeim mun. Þegar þetta leggst saman er myndin nokkuð skýr. Fyrirtæki verða að bregðast við með því að hækka verð eða fækka starfsmönnum eins og kom raunar fram í könnun sem við gerðum meðal okkar félagsmanna.“

Það styttist í kjaraviðræður á milli launþegahreyfinga og atvinnulífsins. „Staðan er sú að það er lítið sem ekkert til atvinnurekenda að sækja,“ segir hann.

Hækkaði um 65 prósent

Raungengi krónu miðað við hlutfallslegan launakostnað hækkaði um 65 prósent á árunum 2011 til 2017, samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum. Launakostnaður á framleidda einingu hækkaði um 33 prósent hér á landi á sama tímabili samanborið við níu prósent í OECD-ríkjunum.

Erlendir framleiðendur þurfa líka að hækka verð 

Erlendis reyna framleiðendur einnig að hækka vöruverð í kjölfar hækkana á hrávörumörkuðum. Procter & Gamble, sem ÍSAM er með umboðið fyrir, hefur hækkað verð á bleyjum, klósettpappír og eldhúsrúllum í Bandaríkjunum um fjögur til fimm prósent.

Coca-Cola hefur einnig hækkað verð vegna ýmissa kostnaðarhækkana, allt frá flutningi til áls. Whirlpool mun einnig fleyta tollahækkunum á stáli og áli til neytenda. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Fyrirtæki á neytendavörumarkaði á borð við P&G, Unilever og Colgate-Palmolive hafa lengi átt erfitt með að fleyta auknum kostnaði í vöruverð vegna aukinnar samkeppni frá keppinautum á netinu og vegna þess að smásalar selja í auknum mæli ódýrari vörur undir eigin vörumerki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
FESTI
2,4
9
460.500
MAREL
2,11
21
654.042
EIK
1,75
5
182.750
HAGA
1,17
10
543.240
SKEL
0,99
2
24.540

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
-1,57
1
5.402
KVIKA
-0,66
2
38.617
SJOVA
-0,27
1
27.525
ICEAIR
-0,22
5
3.403
ARION
-0,13
12
146.263
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.