Körfubolti

Emil yfirgaf Hauka eftir 21 ár: Þurfti að prófa eitthvað nýtt svo ég sæi ekki eftir því

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Emil Barja hefur spilað allan sinn körfuboltaferil með Haukum í Hafnarfirði en hann skrifaði í gær undir samning við fimmfalda Íslandsmeistara KR.

Hvað kom til að Emil, sem hefur verið fyrirliði Hauka síðustu ár, ákvað að breyta til?

„Bara að prófa eitthvað nýtt. Ég er búinn að vera hjá Haukum síðan ég var sex ára og ég held það sé bara kominn tími á að prófa eitthvað annað á meðan maður hefur líkamann í það,“ sagði Emil á blaðamannafundi KR í gær þar sem hann var kynntur til leiks.

„Það var mjög erfitt, alveg hrikalega erfitt [að ákveða að yfirgefa Hauka]. Haukar eru toppfélag og ennþá mitt félag, uppeldisfélag. Það var erfitt en þurfti að koma að því einhvern tímann svo maður sjái ekki eftir því eftir ferilinn að hafa ekki prófað eitthvað annað.“

Emil skrifaði undir tveggja ára samning við KR. Á fundinum skrifaði Björn Kristjánsson líka undir framlengingu á samningi sínum við KR. KR vann sinn fimmta Íslandsmeistaratitil í röð í vor en nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum í sumar og nýr þjálfari tekinn við.

„Þetta eru Íslandsmeistararnir og þó þeir hafi misst leikmenn þá eru þeir ennþá með góðan hóp. Ég fékk að vita það fyrir tveimur vikum síðan að ég var hérna þegar ég var tveggja ára, í íþróttaskóla KR, þannig að maður er kannski bara að koma aftur til baka,“ sagði Emil Barja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×