Körfubolti

Frumraun Tryggva í kvöld

Hjörvar Ólafsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Getty
Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, mun hefja leik með Toronto Raptors í Summer League (sumardeildinni) í kvöld. Er það æfingamót ætlað þeim leikmönnum sem komust ekki að hjá aðalliðum NBA-liðanna í nýliðavali sem og öðrum leikmönnum sem liðin hafa áhuga á að skoða með samning í huga.

Tryggvi Snær kom til greina í nýliðavali NBA sem fram fór fyrir skömmu síðan, en hann var ekki valinn að þessu sinni. Toronto Raptors ákvað hins vegar að skoða þennan hávaxna miðherja enn frekar og mun hann leika með liðinu í þessari deild. Toronto Raptors mætir New Orleans Pelicans í fyrsta leik sínum í deildinni klukkan 19.30 í kvöld.

Tryggvi Snær er enn samningsbundinn spænska liðinu Valencia, en hann gekk til liðs við félagið frá Þór Akureyri á síðasta ári og lék með því á síðustu leiktíð. Tryggvi Snær hyggst æfa í Santa Barbara í Kaliforníu þegar sumardeildinni lýkur og hefja svo æfingar með Valencia þegar undirbúningstímabilið hefst hjá liðinu um mánaðamótin september og október.

Hann sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir landsleikina gegn Búlgaríu og Finnlandi fyrr í þessum mánuði að hann sæi ekki annað fyrir sér en að hann myndi spila með spænska liðinu á næsta keppnistímabili. Nú er svo spurning hvort hann heilli annaðhvort forráðamenn Toronto Raptors eða annars NBA-liðs og fái samningstilboð þar. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×