Keahótel ehf. hefur gengið frá kaupum á Hótel Kötlu við Vík í Mýrdal en hótelið verður áfram rekið undir sama nafni og mun reksturinn að mestu leyti haldast óbreyttur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keahótelum.
Hótel Katla er þriggja stjörnu heilsárshótel með 103 herbergjum og veitingastað. Það stendur í landi Höfðabrekku og er í um fimm kílómetra fjarlægð frá Vík í Mýrdal.
„Hótel Katla er einstaklega vel staðsett í fallegu umhverfi og sjáum við mikla möguleika til frekari uppbyggingar á svæðinu,“ segir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótela ehf., í tilkynningu.
„Hótel Katla verður tíunda hótelið sem rekið verður undir merkjum Keahótela, en fyrir rekur það sex hótel í Reykjavík og þrjú á Norðurlandi með samtals 794 herbergi.
Kaupin eru frágengin og er kaupverðið trúnaðarmál,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Keahótel kaupir Hótel Kötlu
