Erlent

Bjóða fleiri bandarískum hermönnum til Noregs

Bandarískir landgönguliðar í Noregi.
Bandarískir landgönguliðar í Noregi. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Noregs vill tvöfalda fjölda bandarískra landgönguliða í landinu, hafa þá lengur og hafa þá nærri landamærum Rússlands. Verði tilboðið samþykkt mun það líklegast leiða til deilna við Rússa. 330 landgönguliðum var boðið til Noregs í fyrra og hefur 700 verið boðið 2019.

Ine Eriksen Soereide, utanríkisráðherra Noregs, segir ekki standa til að koma upp bandarískri herstöð í Noregi og fjölgun bandarískra hermanna sé ekki ætlað að senda skilaboð til Rússlands.

Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, segir varnir Noregs byggja á stuðningi bandamanna ríkisins í Atlantshafsbandalaginu. Ef til átæka kæmi væri nauðsynlegt að hafa æft vel með þessum bandamönnum.

„Við verðum að tryggja að hermenn NATO og annarra bandamanna okkar fái reynslu af Noregi og myndi tengsl við norska hermenn,“ sagði Frank Bakke-Jensen, samkvæmt Nrk.



Reuters segir þó að áhyggjur yfirvalda Noregs vegna Rússa hafi færst í aukana á undanförnum árum og þá sérstaklega eftir innlimun Krímskaga.



Umræddum 700 hermönnum er ætlað að vera í Noregi í fimm ár og á sama tíma vilja Bandaríkin gera breytingar á herstöð skammt frá Noregi svo þeir geti komið fjórum orrustuþotum þar fyrir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×