Norræni leikfangarisinn Top-Toy, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Toys ‘R‘ Us og BR, er í miklum fjárhagsvandræðum og hyggst loka um hundrað verslunum á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Samfara lokunum verður 450 manns sagt upp.
Þetta kom fram í dönskum fjölmiðlum á föstudaginn. Framkvæmdastjórinn Per Sigvardsson segir í samtali við DR að nauðsynlegt sé að bregðast við stöðinni með þessum hætti, en félagið birti ársreikning sinn í síðustu viku.
Félagið rekur þrjár verslanir undir merkjum Toys ‘R‘ Us á Íslandi – Í Kringlunni, Smáralind og á Akureyri. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir að ekki séu „neinar áætlanir áætlanir um að loka verslunum á Íslandi“.
DR segir frá því að tólf verslunum verði lokað í Danmörku og 180 manns sagt upp. Alls rekur félagið 77 verslanir undir merkjum BR í Danmörku og 21 Toys ‘R‘ Us verslun. 26 verslunum verður lokað í Svíþjóð og í Þýskalandi verður öllum verslunum félagsins lokað. Verslunum verður lokað á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Fyrr á árinu var greint frá því að Toys R Us hugðist loka öllum verslunum sínum í Bandaríkjunum.
Loka um hundrað verslunum á Norðurlöndum og Þýskalandi

Tengdar fréttir

Engin áform um lokun Toys 'R' Us hér á landi
Verslanir Toys 'R' Us á Íslandi eru reknar af dönsku fyrirtæki.