Erlent

Óttast að 400.000 börn gætu soltið í Kongó

Kjartan Kjartansson skrifar
Mæður bíða með börnum sínum eftir matvælaaðstoð í Kasai-héraði í Kongó.
Mæður bíða með börnum sínum eftir matvælaaðstoð í Kasai-héraði í Kongó. Vísir/AFP
Sameinuðu þjóðirnar vara við því að um 400.000 börn í Kasai-héraði í Kongó eigi á hættu að verða hungurmorða. Þúsundir fjölskyldna hafa lengt á vergangi vegna átaka sem brutust út í héraðinu árið 2016.

Fólkið sem lagði á flótta hefur hafst við í óbyggðum þar sem matur og vatn er af skornum skammti í marga mánuði. Óttast er að margir hafi þegar látið lífið. Sameinuðu þjóðirnar lýstu yfir hæsta mögulega neyðarástandi í Kongó í desember. Það er sambærilegt við Jemen, Sýrland og Írak.

Christophe Boulierac, talsmaður Unicef, barnahjálpar SÞ, segist hafa orðið fyrir áfalli vegna þess sem hann sá í nýlegri heimsókn til Kasai. Illa vannærð börn lágu þá á sjúkrahúsum og nokkur þeirra dóu á meðan hann var á svæðinu, að því er breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir honum.

„Við erum ekki að segja að börn eigi á hættu að deyja úr vannæringu í Kasai, við erum að segja að börn eru þegar að deyja, þau eru að deyja, þau hafa dáið, í þögn, úti í óbyggðum,“ segir Boulierac.

Fjórar milljónir manna í Kasai eru sagðar hjálpar þurfi vegna uppreisnarinnar sem geisar þar. Unicef hefur óskað eftir 88 milljónum dollara í neyðaraðstoð fyrir íbúa héraðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×