Skoðun

Rauði þráður Reykjavíkur

Hildur Björnsdóttir skrifar
Ilmurinn er lokkandi. Hann fyllir vitin og freistar. Dáleiðir íbúana í biðröðinni. Nýbakað brauð og dísætir snúðar. Skilvirk röðin er engum til ama. Þar mætist fólk og á samskipti. Einn gengur leiðar sinnar í eril kjörbúðar. Annar á stefnumót við kaffibolla. Þriðji sækir heimilis­prýði til blómasala. Börn með ísbráð í munnvikum þeysast um hverfið. Örugg og óhrædd. Fólk mætist. Fólk á samskipti.

Þetta er hverfið mitt. Vesturbærinn í Reykjavík. Sjálfbært hverfi með öfluga nærþjónustu. Þar skríður fólk úr híðinu. Hverfið verður hluti heimilisins. Fólk fórnar fermetrum fyrir líflegt nærsamfélag – enda smærri búsetukostir ráðandi í sjálfbærum hverfum. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.

Mörg hverfi Reykjavíkur eru einangruð. Byggðin dreifð og samgöngur erfiðar. Skipulag sem styður illa við verslun. Þjónusta illfær þeim fótgangandi. Hverfi þar sem fólk þekkir bíl nágrannans betur en nágrannann sjálfan. Hverfi sem skortir mannlíf.

Reykjavík þarf fleiri sjálfbær hverfi. Lifandi hverfi sem draga íbúa úr fylgsnum sínum. Eitt lítillátt kaffihús kemur einangruðum úr húsi. Það er mikilvægt – enda lífsnauðsyn mannlegra samskipta margsönnuð. Mikilvægi þess að draga úr einsemd og félagslegri einangrun. Þannig ætti forgrunnur alls skipulags – rauði þráður Reykjavíkur – að vera samskipti.

Borgarskipulag hefur áhrif á lífsgæði. Það er samofið lýðheilsu og fjölbreyttum félagslegum þáttum. Við þurfum hverfi sem styðja við samskipti ólíkra þjóðfélagshópa. Úr öllum þjóðfélagsþrepum. Ungra sem aldinna. Við þurfum hverfi þar sem fólk sækir verslun og þjónustu. Þar sem fólk mætist og þekkist. Hverfi sem ekki aðallega er gott að yfirgefa – heldur hverfi þar sem aðallega er gott að dvelja.

Ég vil Reykjavík sem býður frelsi og val. Höfuðborg í forystu um grænar og vistvænar lausnir. Fjölbreytta borg fyrir fjölbreytt fólk. Reykjavík sem mætir alls kyns þörfum. Sjálfbær hverfi með öflugri nærþjónustu. Borg sem dregur úr einsemd og félagslegri einangrun. Borgarskipulag sem stuðlar að samskiptum. Reykjavík sem bannar minna og leyfir meira – styður við framtakssemi og fagnar hugmyndaauðgi. Borg sem setur mannlíf í forgrunn. Reykjavík þar sem fólki líður vel.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×