Erlent

Myrti fólk vegna þessa að Trudeau bauð flóttamenn velkomna

Kjartan Kjartansson skrifar
Trudeau á útifundi til minningar um fórnarlömb byssumannsins í fyrra.
Trudeau á útifundi til minningar um fórnarlömb byssumannsins í fyrra. Vísir/AFP
Maður sem skaut sex manns til bana í mosku í Kanada í janúar í fyrra sagði lögreglu að hann hefði framið morðin vegna þess að Justin Trudeau, forsætisráðherra, bauð flóttamenn velkomna til landsins eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti reyndi að stöðva komu þeirra til Bandaríkjanna.

Upptaka af yfirheyrslu lögreglu á öfgamanninum Alexandre Bissonnette var spiluð í réttarsal þegar fjallað var um refsingu yfir honum í gær. Bissonette á yfir höfði sér allt að 150 ára fangelsi. Hann sagði lögreglumönnunum að hann hefði haft vaxandi áhyggjur af hryðjuverkum í aðdraganda morðanna.

Það hafi verið orð Trudeau þar sem hann bauð flóttamenn velkomna til Kanada sem hafi hrynt honum yfir brúnina. Hann hafi orðið sannfærður um að fjölskylda hans yrði í hættu stödd ef fleiri flóttamenn kæmu til landsins, að því er segir í frétt The Guardian.

„Ég var, þú veist, viss um að þeir myndu koma og drepa foreldra mína líka og fjölskylduna mína,“ sagði Bissonnette.

Þráhyggja Bissonnette gagnvart hryðjuverkum hófst þegar íslamskur árásarmaður skaut hermann til bana við stríðsminnisvarða í Ottawa og réðist inn í þinghúsið árið 2014 og hryðjuverkaárásarinnar í Nice í Frakklandi þar sem 86 manns biðu bana árið 2016.

Eftir að Trump Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun með ferðabanni á múslimalönd í janúar í fyrra svaraði Trudeau með tísti þar sem hann tók flóttamönnum opnum örmum.

„Til þeirra sem flýja ofsóknir, hryðjuverk og stríð, Kanadamenn munu gera ykkur velkomna, óháð trú ykkar. Fjölbreyttni er styrkur okkar #VelkomintilKanada,“ tísti Trudeau 29. janúar í fyrra.

Sama dag fór Bissonnette vopnaður riffli og skammbyssu að moskunni í Quebec þar sem fleiri en fimmtíu manns voru. Áður en yfir lauk hafði hann banað sex mönnum og sært nítján aðra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×