Viðskipti innlent

Vilt þú gera framúrskarandi Skaup fyrir RÚV?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dóri DNA og Dóra Jóhannsdóttir í einum af mörgum hlutverkum sínum í Skaupinu í ár.
Dóri DNA og Dóra Jóhannsdóttir í einum af mörgum hlutverkum sínum í Skaupinu í ár. Skjáskot af vef RÚV
Ríkisútvarpið auglýsir eftir áhugasömu fólki til að taka að sér Áramótaskaupið þetta árið. Sá framleiðandi sem fær verkefnið í hendur hefur til umráða 32 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við vekrefnið. RÚV auglýsti einnig eftir fólki til þess að taka verkið að sér í fyrra en þá voru 30 milljónir króna sem framleiðandi hafði úr að spila.

Krafa er gerð um „framúrskarandi gæði og hugmyndaauðgi“, Skaupið skal vera 50-55 mínútur að lengd, innihald skal vera í samræmi við gildandi lög og reglur um efni sem sýnt er á RÚV og þá verður framleiðandi að fara eftir leikarasamningi RÚV við Félag íslenskra leikara við framleiðslu efnisins.

Farið verður fram á reglulegt samtal við dagskrárstjóra og aðkomu hans að lykilákvörðunum sem snerta framleiðsluna, þ.m.t. samþykkt handrits, starfsfólks og á endanlegu klippi. Grófklipptri útgáfu Skaupsins skal skila eigi síðar en 14. desember. Fullkláraðri útgáfu til útsendingar skal skila eigi síðar en 27. desember.

Í tillögunum þarf að koma fram heildræn sýn á verkefnið; á aðferð innihald og nálgun við framleiðslu. Sömuleiðis ítarleg lýsing á efnistökum og nálgun í handriti, útfærslu á umgjörð, heildarsvip, uppbyggingu eða sérstöku þema auk upplýsinga um lykilstarfsmenn eða tillögur að þeim. Er átt við leikstjóra, handritshöfunda og helstu leikara.

Arnór Pálmi Arnarson leikstýrði Skaupinu í fyrra en Skaupið vann til verðlauna á Edduverðlaununum sem skemmtiþáttur ársins. Að handritinu komu Anna Svava Knútsdóttir, Arnór Pálmi Arnarson, Bergur Ebbi Benediktsson, Dóra Jóhannsdóttir, Dóri DNA og Saga Garðarsdóttir en leikstjóri er Arnór Pálmi Arnarson.

Umsóknarfrestur er til og með 22. maí en sótt er um á vef RÚV


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×