Formúla 1

Reiknivilla kostaði Hamilton sigurinn í Ástralíu

Bragi Þórðarson skrifar
Hamilton varð að játa sig sigraðan um helgina.
Hamilton varð að játa sig sigraðan um helgina. Vísir/Getty

Villa í reikniriti Mercedes liðsins varð til þess að Lewis Hamilton varð að sjá á eftir sigri í Ástralíu til aðal keppinauts síns, Sebastian Vettel hjá Ferrari. Báðir þessir ökumenn hafa lyft fjórum heimsmeistaratitlum í Formúlu 1.

Hamilton leiddi kappaksturinn framan af og allt leit út fyrir að hann myndi halda þeirri forystu eftir fyrstu þjónustuhléin. En þegar að Lewis og Kimi Raikkonen, sem var í öðru sæti á eftir Bretanum, voru búnir með sín dekkjaskipti átti Vettel eftir að fara inn og leiddi því kappaksturinn.

„Allt var eins og það átti að vera, við tókum smá áhættu með að setja Lewis á mjúku dekkin til að keyra kappaksturinn til enda en það var eina leiðin til að halda Kimi fyrir aftan okkur,‘‘ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.

Það var á þessum tímapunkti sem að svokallaður sýndaröryggisbíll (e. virtual safety car) var kallaður til vegna þess að Haas-bíll Romain Grosjean hafði stoppað í brautinni. Þetta þýðir að allir ökumenn verða að halda jöfnum hraða á brautinni rétt eins og þeir myndu gera fyrir aftan venjulegan öryggisbíl.

Ferrari sá þarna tækifæri og kallaði Vettel inn í þjónustusvæðið og þar sem Lewis gat ekki ekið á fullum hraða á meðan úti á brautinni var það Vettel sem kom út á undan og endaði á að vinna kappaksturinn.

Hamilton skildi ekkert í því hvernig andstæðingur hans fór að því að komast fram úr og spurði liðið strax hvort að hann sjálfur hafi gert einhver mistök, þar sem forskot Hamilton var meira en nóg fyrir dekkjaskiptin til að halda Þjóðverjanum fyrir aftan sig.

„Lewis gerði ekkert rangt,“ sagði Toto Wolff eftir kappaksturinn. „Það kom upp reiknivilla í hugbúnaðinum sem við notum í þessum aðstæðum, búnaður sem við höfum notað síðastliðin fimm ár.‘‘

Sigur Vettels þýddi að þetta er í fjórða skiptið á fimm árum sem Hamilton nær ekki sigri frá ráspól í Ástralíu.


Tengdar fréttir

Vettel vann fyrstu keppni ársins

Það var Sebastian Vettel hjá Ferrari sem stóð uppi sem sigurvegari í ástralska kappakstrinum eftir harða keppni við Lewis Hamilton.

Hamilton verður á ráspól

Lewis Hamilton, ökukappi Mercedes, verður á ráspól í ástralska kappakstrinum fimmta árið í röð eftir að hann átti besta tímann af öllum í tímatökunni í nótt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.