Erlent

Óvopnaður maður með buxurnar á hælunum skotinn til bana af lögreglu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot út myndbandinu.
Skjáskot út myndbandinu. Vísir
Lögreglumaður í Texas í Bandaríkjunum skaut óvopnaðan mann til bana síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn var með buxurnar á hælunum en hlýddi ekki fyrirmælum lögreglumannsins. New York Times greinir frá.

Myndband sem lögreglan í Houston hefur birt, og sjá má hér að neðan, sýnir hvernig maðurinn, hinn 34 ára gamli Danny Ray Thomas, virðist eiga í átökum við annan mann út á götu.

Myndbandið er tekið upp af myndavél í bíl lögreglumannsinns sem skaut Thomas til bana. Í myndbandinu má sjá hvernig Thomas gengur að lögreglumanninum. Þá má einnig heyra hvernig lögreglumaðurinn kallar á Thomas að leggjast á jörðina.

Svo virðist sem að Thomas hafi ekki hlýtt tilmælum lögreglumannsins sem heitir Cameron Brewer. Heyrist þá hvernig Brewer skýtur Thomas.

Systir hans mætti á borgarráðsfund í Houston í vikunni þar sem hún grátbað stjórnmálamenn um að koma í veg fyrir ofbeldi af hálfu lögreglumanna. Sagði hún við fjölmiðla fyrir utan ráðhúsið í Houston að frá hennar sjónarhóli líti út fyrir að bróðir hennar hafi verið myrtur.

„Hann var augljóslega að labba að lögreglumanninum. Hann var ekki hlaupandi að honum eða að reyna að meiða hann,“ sagði hún við fjölmiðla.

Brewer var einnig vopnaður rafbyssu en notaði hana ekki. Hann hefur verið settur í leyfi á meðan rannsókn málsins fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×