Körfubolti

Haukakonur verða deildarmeistarar með sigri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Ernir
Haukastrákarnir eru orðnir deildarmeistarar í Domino´s deild karla í körfubolta og í kvöld geta Haukastelpurnar leikið það eftir.

Haukaliðið heimsækir Val í toppslag deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld og með sigri þá tryggir Haukaliðið sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út úrslitakeppnina.

Leikur Vals og Hauka hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Haukastrákarnir voru að verða deildameistarar í fyrsta sinn en Haukastelpurnar geta unnið sinn fimmta deildarmeistaratitil en þær unnu hann einnig árin 2006, 2007, 2009 og 2016.

Það eru ennþá þrjár umferðir eftir þegar leikirnir klárast í kvöld en Haukaliðið væri með sigri komið með sex stiga forystu á Val og um leið búið að tryggja sér betri stöðu í innbyrðisleikjum.

Valskonur töpuðu á móti Skallagrími í Borgarnesi á sunnudagskvöldið og það eru þau úrslit sem gefa Haukakonum þetta tækifæri að tryggja sér deildarmeistaratitilinn á heimavelli liðsins sem er í öðru sæti.

Haukakonur unnu sinn þrettánda deildarsigur í röð á laugardaginn en liðið er búið að vinna alla leiki sína síðan að þær mættu síðast á Hlíðarenda 2. desember og töpuðu þá 78-68.

Síðan þá hefur Haukaliðið unnið tvo sigra á liðum Breiðabliks, Keflavíkur, Skallagríms, Stjörnunnar, Njarðvíkur og Snæfells og svo einn sigur á Val á sínum eigin heimavelli.

Vinni Haukaliðið í kvöld nær liðið því að vinna öll hin deildarinnar tvisvar sinnum í einum rykk.

Valskonur hafa átt í miklum vandræðum með Helenu Sverrisdóttur í fyrstu þremur leikjum liðanna í vetur en Helena er með þrennu að meðaltali á móti Val á tímabilinu, hefur skorað 11,7 stig, tekið 13,7 fráköst og gefið 14,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á móti Hlíðarendaliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×