Körfubolti

Körfuboltakvöld ræddi um æfingahóp landsliðsins: „Algjörlega útilokað að fatta þetta”

Anton Ingi Leifsson skrifar
Um helgina æfir tuttugu manna æfingarhópur KKÍ, en eftir tæpa viku spilar karlalandsliðið í körfubolta tvo heimaleiki gegn Finnlandi og Tékklandi í undankeppni HM 2019 sem fer fram í Finnlandi.

Valdir hafa verið tuttugu leikmenn úr deildinni hér heima, en talið er að þeir berjist um tvö til fjögur sæti í hópnum sem mætir Finnlandi og Tékklandi. Tíu aðrir leikmenn hafa verið valdir, en þeir þurfa ekki að taka þátt í æfingunum um helgina.

Athygli vekur að á morgun spila Haukar gegn KR í Dominos-deild karla, en leikurinn er afar mikilvægur um toppsætið í Dominos-deildinni. Fimm leikmenn Hauka eru í hópnum og engin KR-ingur, en landsliðshópurinn æfir um helgina.

Körfuboltakvöld ræddi þetta í þætti sínum í gærkvöldi þar sem Kjartan Atli, Kristinn Friðriksson og Teitur Örlygsson fóru yfir það afhverju þessi hópur væri að æfa degi fyrir einn mikilvægasta leik tímabilsins hingað til. Í æfingahópnum eru fimm Haukamenn, en ekki einn úr KR.

„Í fyrsta lagi finnst mér asnalegt að það sé verið að velja tuttugu leikmenn til að fylla tvö til fjögur pláss. Maður veit ekkert hvað þeir eru að pæla,” sagði Kristinn Friðriksson, annar spekingur þáttarins.  

„Eru fimm Haukarar að fara berjast á æfingu í dag? Það getur ekki verið því þeir eiga leik gegn KR á morgun,” bætti Kristinn við. „Mér finnst þetta mjög asnalegt.”

„Ég skil ekki hvað er verið að fara. Þegar ég las þetta fyrst þá helt ég að þetta væri afrekshópur KKÍ eins og hjá krökkunum. Fá allir verðlaunaskjal eftir æfinguna? Veljiði bara 16-17 og eftir það verða bara fjórir til fimm teknir út,” sagði Teitur Örlygsson, hinn spekingur þáttarins.

„Ég skil ekki tilganginn. Til hvers eru þessar æfingar? Það er algjörlega útilokað að fatta þetta,” bætti Kristinn við að lokum.

Þetta athyglisverða innslag má sjá í spilanum hér að ofan, þar sem er meðal annars fjallað um afhverju Kári Jónsson sé í þessum hóp en ekki tíu manna hópnum fleira til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×