Skoðun

Magnaðir tímar í borginni

Það eru magnaðir tímar í borginni. Menn segja að nú standi yfir mesta uppbyggingarskeið í sögu hennar. Þar sem áður voru malarlóðir, bílaplön, úr sér gengin athafnasvæði, veghelgunarsvæði og afgangslóðir er nú að rísa fjöldi íbúðarhúsa. Framkvæmdir eru hafnar á reitum þar sem 3.600 íbúðir rísa. Deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir tæplega 4.000 íbúðir í viðbót.

Nánast allar þessar íbúðir eru innan núverandi byggðarmarka. Borgin byggist nú inn á við eftir að hafa byggst út á við áratugum saman. Það styttir vegalengdir, eflir þjónustu og minnkar mengun.

Rauður og grænn þráður í skipulaginu er áherslan á mannvænt skipulag, vistvænar og skilvirkar samgöngur og jöfnuð. Það sýna fyrirhuguð Borgarlína og samningar borgarinnar við húsnæðisfélög almannasamtaka, námsmanna og aldraðra um íbúðarbyggingar á hagstæðum kjörum næstu árin.

Það er mikilvægt að allir geti búið í húsnæði við hæfi, hvort sem er í eigu, leigu eða með búsetufyrirkomulagi. Það er mikilvægt að allir komist leiðar sinnar fljótt og vel, og geti notið ferðarinnar í borginni sem gestir okkar dásama fyrir nálægð við náttúruna umhverfis. Við verðum að leysa umferðarhnútana á stofnbrautum milli hverfa – með bættum umferðarmannvirkjum sem gagn er að en ekki síður margvíslegum valkostum við að komast til vinnu eða skóla og heim aftur.

Ég er jafnaðarmaður og lít svo á að ein mikilvægasta lífskjarabarátta okkar tíma snúist um borgarumhverfið; að það sé hagkvæmt fyrir alla, heilsusamlegt, öruggt, aðlaðandi og fjölbreytt. Jöfnuður er hugsjón – en oftast er það líka þannig að jöfnuður borgar sig. Í húsnæðismálum, samgöngum, skólum og heilbrigðisþjónustu.

Verkefnin fram undan eru stór og spennandi. Við þurfum að taka við fólki og efla valkosti á húsnæðismarkaði og í samgöngum. Ekkert gerist af sjálfu sér. Við þurfum að berjast fyrir því að borgarlínan verði til, fái pláss og fjármagn. Hún tengir saman hverfin og léttir á umferðinni – öllum til hagsbóta. Við þurfum að fá nýjan borgarflugvöll til að geta haft íbúðir og útivistarsvæði í Vatnsmýrinni.

Um þetta verður kosið í vor.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×