Viðskipti innlent

Kvika banki á markað í mars

Hörður Ægisson skrifar
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka.
Kvika banki stefnir nú að óbreyttu að skráningu hlutabréfa fjárfestingarbankans á First North markaðinn í Kauphöllinni í byrjun næsta mánaðar. Þetta staðfestir Marinó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri Kviku, í samtali við Markaðinn.

Stjórn bankans samþykkti í lok september í fyrra að stefna að skráningu bankans og var upphaflega lagt upp með að hún yrði að veruleika í lok síðasta árs. Ákveðið var hins vegar að bíða með skráninguna þangað til eftir að ársuppgjör bankans yrði gert opinbert á síðari helmingi þessa mánaðar.

Hagnaður Kviku á fyrstu sex mánuðum síðasta árs nam 946 milljónum. Arðsemi eigin fjár var 26,2 prósent, eigið fé Kviku var um 8.200 milljónir um mitt árið 2017.

Gríðarmikil viðskipti hafa verið með bréf í Kviku á síðustu mánuðum og misserum. Á meðal þeirra sem hafa einnig komið inn í hluthafahóp Kviku að undanförnu eru Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, Lífsverk lífeyrissjóður, Sigurður Sigurgeirsson, fjárfestir og fyrrverandi byggingarverktaki, Eiríkur Vignisson, framkvæmdastjóri Vignis G. Jónssonar, dótturfélags HB Granda, og Hjörleifur Jakobsson, stór hluthafi í bílaumboðinu Öskju, Öryggismiðstöðinni og Samskipum.

Stærstu hluthafar Kviku í dag eru tryggingafélagið VÍS með 23,57 prósenta hlut, félag í meirihlutaeigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis, sem á 9,32 prósenta hlut, og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 8,96 prósent. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×