Körfubolti

Meistararnir létu þristum rigna á Úlfana | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen Curry skoraði 25 stig í nótt.
Stephen Curry skoraði 25 stig í nótt. Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors unnu annan leik sinn í röð í nótt og þaðð 39. á tímabilinu þegar að liðið lagði Minnesota Timberwolves, 126-113, á heimavelli sínum í Oakland í nótt.

Golden State er meðal annars frægt fyrir að vera með ágætis skyttur og þær voru í stuði í leiknum því meistararnir skoruðu hvorki fleiri né færri en 21 þriggja stiga körfu í sigrinum.

Kevin Durant var stigahæstur með 28 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar en þetta er tíunda þrennan hans á ferlinum. Hann skoraði sex þrista úr níu tilraunum.

Skvettubræðurnir Steph Curry (5/7 í þristum) og Klay Thompson (7/9 í þristum) skoruðu báðir 25 stig en meistararnir fengu svo þrjár þriggja stiga körfur af bekknum til viðbótar í þessum örugga sigri. Liðið er með fjögurra sigurleikja forskot á toppi vestursins.

Russell Westbrook var svo í stuði fyrir Oklahoma City Thunder enn eina ferðina þegar að liðið vann Washington Wizards á heimavelli í nótt, 121-112.

Westbrook náði ekki þrennu að þessu sinni en hann skoraði 46 stig sem er það mesta sem hann hefur gert á tímabilinu. Hann tók að auki sex fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Miami Heat - Sacramento Kings 88-89

OKC Thunder - Washington Wizards 121-112

Denver Nuggets - New York Knicks 130-118

Golden State Warriors - Minnesota Timberwolves 126-113

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×