Sænski fataverslunarisinn H&M segist leggja mikið upp úr því að vera samkeppnishæfur á öllum mörkuðum, þar með talið á Íslandi. Það sé því ekki rétt sem Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hélt fram um meint okur verslunarkeðjunnar hér á landi.
Gylfi sagði það liggja í augum uppi að H&M væri dýrara hér á landi en í Noregi - „það blasir við á verðmiðunum þeirra sem sýna verð í báðum löndunum. Er H&M í Noregi þó líklega það dýrasta utan Íslands,“ sagði Gylfi á Facebook og lét þannig í veðri vaka að verslunin væri sérstaklega að okra á Íslendingum.
Sjá einnig: Gylfi ósattur við svör framkvæmdastjóra H&M á Íslandi
H&M segir það alrangt hjá dósentinum. „Við erum alls ekki að reyna að okra eða græða meira á Íslendingum heldur en öðrum,“ segir í yfirlýsingu sem verslunarkeðjan sendi Vísi. H&M vilji þar að auki árétta að „dæmið er flóknara en það að bera saman tölur á verðmiða,“ eins og það er orðað í yfirlýsingunni.
„Þættir eins og flutningskostnaður, skattar og fleira hafa áhrif á verðið og eitthvað sem þarf að taka með í reikninginn þegar verið að setja sjálfbæra verðstefnu fyrir markaðina okkar.“
Verslunin segist þar að auki gera reglulegar verðkannannir og þær gefi til kynna að H&M sé samkeppnishæf á íslenskum markaði - „við bjóðum upp á tísku og gæði á besta verðinu, á sjálfbæran hátt“
„Við erum alls ekki að reyna að okra eða græða meira á Íslendingum en öðrum“

Tengdar fréttir

Hafnar fullyrðingum þingmanns um að H&M sé dýrara á Íslandi
Framkvæmdastjóri H&M segir íslenska markaðinn nógu stóran fyrir þrjár verslanir og Íslendingar hafi sýnt það í verki.

„Dettur ekki í hug“ að fara inn í H&M á Íslandi
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spyr sig hvers vegna afnám tolla og vörugjalda á fatnað hafi ekki skilað sér betur til neytenda.

Gylfi ósattur við svör framkvæmdastjóra H&M á Íslandi
Segir H&M mun dýrara á Íslandi en í Noregi.