Erlent

Hálf öld liðin frá morðinu á Martin Luther King yngri

Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King yngri hefur verið baráttufólki um alla heim leiðarljósa um áratugaskeið. Hann var myrtur á þessum degi fyrir fimmtíu árum en afleið hans lifir ennþá.

Kjartan Kjartansson skrifar
Frægustu ræðu sína flutti King fyrir framan rúmlega 200.000 manns við Lincoln-minnisvarðann í Washington-borg árið 1963. Vísir/Getty
Félagar Martins Luther King yngri úr baráttunni fyrir borgararéttindum blökkumanna í Bandaríkjunum segja að fráfall hans svíði enn þann dag í dag. Fimmtíu ár eru í dag liðin frá því að King var ráðinn af dögum í Tennessee-ríki.

Boðskapur King um friðsama borgaralega óhlýðni sem grundvallaðist á fordæmi Mahatma Gandí á Indlandi og kristinni trú endurómaði langt út fyrir baráttu hans fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum upp úr miðri síðustu öld. Hans er minnst um allan heim sem eins merkasta mannréttindafrömuðar sögunnar.

King var fæddur 15. janúar árið 1929 í Atlanta-borg í Georgíu í suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann fylgdi í fótspor afa síns og föður og gerðist baptistaprestur áður en hann varð þekktasti talsmaður borgararéttindahreyfingarinnar á 6. og 7. áratugnum.

Þetta var tími þar sem aðskilnaðarstefna var enn fest í lög á mörgum stöðum í suðurríkjunum. Svonefnd Jim Crow-lög veittu blökkumönnum að nafninu til jafnan rétt á við hvíta en samkvæmt þeim átti að halda kynþáttunum aðskildum. Opinber þjónusta fyrir blökkumenn stóðst hins vegar þeirri fyrir hvíta sjaldnast snúning. Ein þekktasta birtingarmynd þessa aðskilnaðar var að blökkumönnum var gert að sitja aftast í strætisvögnum.

Barðist fyrir endalokum aðskilnaðar

Eftir að blökkukonan Rosa Park var handtekin fyrir að storka ríkjandi ástandi með því að neita að víkja fyrir hvítum manni í almenningsvagni í bænum Montgomery í Alabama árið 1955 var King einn þeirra sem skipulögðu rúmlega árslanga sniðgöngu á almenningssamgöngum þar.

Þau átök leiddu að lokum til þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að lög um aðskilnað kynþáttanna í almenningsvögnum stönguðust á við stjórnarskrá. Baráttan hafði ekki verið King áfallalaus. Hann var handtekinn, heimili hans var sprengt upp og hann varð skotspónn haturs andstæðinga hreyfingarinnar.

Í framhaldinu varð King fyrsti forseti Kristna leiðtogaráðs suðurríkjanna [e. Southern Christian Leadership Conference],  stórra réttindasamtaka blökkumanna. Sem slíkur skipulagði hann friðsöm mótmæli í suðurríkjunum.

King með eiginkonu sinni Corettu Scott King og tveimur börnum þeirra. Saman eignuðust þau fjögur börn.Vísir/Getty

Hann átti sér draum

Það er hins vegar fyrir gönguna miklu í Washington-borg 28. ágúst árið 1963 sem King verður helst minnst. Þá söfnuðustu hundruð þúsunda manna saman við Lincoln-minnisvarðann til að krefjast borgaralegra- og efnahagslegra réttinda blökkumanna.

Við það tilefni flutti King sína frægustu og rómuðustu ræðu þar sem hann lýsti draumi sínum um heim þar sem jafnrétti væri við lýði óháð kynþætti.

Ég á mér draum um að fjögur ung börn mín muni einn daginn búa í landi þar sem þau verða ekki dæmd eftir húðlit sínum heldur eftir mannkostum þeirra,“ sagði King en enn þann dag í dag er reglulega vitnað í ræðuna innblásnu.

Árið eftir samþykkti Bandaríkjaþing lög um borgararéttindi sem áttu að tryggja blökkumönnum jafnan rétt og koma í veg fyrir misrétti á milli kynþátta. King var þá ekki aðeins táknrænn leiðtogi blökkumanna í Bandaríkjunum heldur fyrirmynd um allan heim.

Hann varð yngsti maðurinn til að hljóta friðarverðlaun Nóbels sama ár, þá aðeins þrjátíu og fimm ára gamall. Verðlaunin hlaut hann fyrir að berjast gegn kynþáttamisrétti með friðsamlegri andspyrnu. Verðlaunaféð gaf hann til borgararéttindahreyfingarinnar.

Skotinn til bana á móteli í Memphis

Baráttu King var þó hvergi nærri lokið. Hann tók þannig þátt í skipuleggja frægar göngur frá bænum Selma til Montgomery í Alabama þar sem blökkumenn kröfuðst þess að fá að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að kjósa árið 1965.

King var hins vegar ekki á meðal göngumanna þegar lögreglumenn og æstur múgur gengu í skrokk á óvopnuðum göngumönnum með kylfum og táragasi 7. mars árið 1965. Göngurnar vöktu töluverða athygli á baráttu blökkumanna og jók samúð bandarísks almennings með kröfum þeirra.

Sama ár voru lög um kosningarétt samþykkt í Bandaríkjunum sem var ætlað að ryðja úr vegi hindrunum sem sum ríki og sveitarstjórnir beittu til að neita blökkumönnum um að fá að kjósa.

Félagar King benda á hvaðan skotið kom. Lorraine-mótelið er nú hluti af safni um borgararéttindabaráttuna í Bandaríkjunum.Vísir/Getty
King átti sér óvildarmenn á meðal kynþáttahatara og afturhaldssamari afla í Bandaríkjunum. Barátta hans síðustu árin áður en hann var myrtur gegn Víetnamstríðinu og efnahagslegum ójöfnuði styggði hins vegar enn fleiri, þar á meðal bandarísk stjórnvöld og suma fylgismenn King.

Þá féll það í grýttan jarðveg hjá sumum hvítum íbúum norðurríkjanna þegar King stóð fyrir sambærilegum mótmælum gegn misrétti þar og hann hafði áður gert í suðrinu.

King var í Memphis í Tennessee þar sem hann tók þátt í verkfalli sorphirðumanna  þegar hann var skotinn til bana á svölum Lorraine-mótelsins  4. apríl árið 1968. Morðingi King var James Earl Ray. Hann var dæmdur í 99 ára fangelsi fyrir morðið. Ray lést árið 1998.

Innblástur til að tala gegn óréttlæti

Leiðtogar réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum hafa minnst King síðustu daga í aðdraganda tímamótanna, þar á meðal John Lewis, þingmaður og síðasti eftirlifandi ræðumaðurinn frá göngunni stóru í Washington-borg árið 1963.

„Þegar þú sérð eitthvað sem er ekki rétt, sem er ekki sanngjarnt, þá ert það ekki aðeins þú sem hefur siðferðislega skyldu til að gera eitthvað, að segja eitthvað. Dr. King veitti okkur innblástur til að gera einmitt það,“ segir Lewis.

Jessie Jackson, sem tók ásamt öðrum við kyndli King var viðstaddur þegar King var myrtur. Hann segir að sársaukinn vegna dauða hans sé enn til staðar.

„Í hvert skipti sem ég sný aftur þangað, finn ég fyrir krafti atburðarins,“ segir Jackson.

Barack Obama með Jown Lewis þegar þess var minnst að hálf öld var liðin frá því að friðsöm ganga blökkumanna í Selma í Alabama var barin niður með offorsi.Vísir/AFP
Barack Obama, fyrsti svarti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, segir að það sé ekki alltaf vinsælt að vera réttu megin sögunnar eins og King.

„Ef þú talar fyrir félagslegu réttlæti þá verður það umdeild samkvæmt skilgreiningu því ef það væri ekki umdeilt þá hefði einhver þegar leiðrétt það. Dr. King var umdeildur en hann lærði og hann hugsaði og hann mótaði það sem hann sagði. Hann vissi þegar hann talaði að hann væri að tjá sannleikann eins vel og hann þekkti hann,“ segir Obama.

Arfleið King lifir enn í Bandaríkjunum og um allan heim. Samkomur hafa verið skipulagðar til að minnast hans í dag, þar á meðal  Fjöldi gatna um gervöll Bandaríkin ber nafn hans og King varð fyrsti blökkumaðurinn sem fékk minnisvarða til heiðurs sér í Washington-borg árið 2011.

Árið 1986 gerði Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, Martin Luther King-dag að sérstökum þjóðhátíðardegi. Honum er fagnað þriðja mánudag janúarmánaðar, nálægt afmælisdegi King.

Minnisvarði um Martin Luther King var vígður í Washington-borg árið 2011. Hann var fyrsti blökkumaðurinn til að verða þess heiðurs aðnjótandi.Vísir/AFP

 


Tengdar fréttir

Stytta af Martin Luther King

Hátt á 10 metra granít-stytta af Martin Luther King hefur verið afhjúpuð suður af Hvíta Húsinu í Washington borg. Barack Obama mun vígja styttuna 28. ágúst næstkomandi, og markar sú athöfn afmæli ræðunnar ódauðlegu „I have a dream," þar sem Martin krafðist jafnréttis kynþátta.






×