Í þættinum gaf Ragnar Þór Ingólfsson til kynna að verkalýðshreyfingin gæti beitt fyrir sig áhrifum í lífeyrissjóðskerfinu til að knýja á um kröfum sínar í kjarasamningsviðræðum. Þannig gæti hún látið fulltrúa sem hún tilnefnir í stjórnir lífeyrissjóða „skrúfa fyrir“ fjárfestingar sjóðanna á meðan óvissa ríkti eða samningar væru lausir.
Fjármálaeftirlitið sendi frá sér yfirlýsingu í hádeginu þar sem það minnir á þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi lífeyrissjóða samkvæmt lögum.
Sjá einnig: Verkalýðsforkólfar segjast standa í „stéttastríði“ og hóta að stöðva fjárfestingar
„Lífeyrissjóðir veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts og lýtur starfsemi þeirra að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Lífeyrissjóðum er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná framangreindum tilgangi,“ segir í yfirlýsingunni og vísað til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Fjármálaeftirlitinu sé að sama skapi falið að hafa eftirlit með því hvort að starfsemi lífeyissjóða sé, að einhverju leyti, „óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust.“ Við mat á því styðjist eftirlitið við ákvæði laga um hlutafélög, þar sem segir að „[f]élagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“
Sjá einnig: Segir lífeyrissjóðina ekki mega stjórnast af þvingunum
Að þessu útlistuðu segist Fjármálaeftirlitið telja að „að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem að framan var lýst.“ Ekki verður annað úr þessu lesið en að hugmyndir formanns VR um að beita lífeyrissjóðum í kjarabaráttunni séu ólöglegar.
Aðrir hafa tekið undir þessa útlistun eftirlitsins. Má þar til að mynda nefnda Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanns stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún sagði í samtali við Vísi í morgun að þau sem tilnefna fólk í stjórnir lífeyrissjóða hafi ekki boðvald yfir þeim. Stjórnarmenn hafi það hlutverk að gæta einungis hagsmuna sjóðsfélaga, auk þess sem starfsemi sjóðanna sé bundin í lög og lífeyrissjóðir starfi samkvæmt lögum.