Viðskipti innlent

Hagnaður N1 minnkaði um fimmtung á milli ára

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Eggert Þór Kristófersson. forstjóri N1.
Eggert Þór Kristófersson. forstjóri N1. vísir/valli
Hagnaður olíufélagsins N1 nam 831 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins og dróst saman um 19,9 prósent á milli ára. Dróst EBITDA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði – saman um 12,7 prósent og nam 1.478 milljónum króna.

Segja stjórnendur félagsins samdráttinn skýrast af óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á olíu, en bensínverð lækkaði um 9,8 prósent á öðrum fjórðungi ársins, sem og hærri launakostnaði, en hann hækkaði um 11 prósent á tímabilinu.

Engu að síður er afkomuspá félagsins óbreytt fyrir árið. Gera stjórnendur N1 ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 3.500 til 3.600 milljónir að undanskildum kostnaði við fyrirhuguð kaup félagsins á Festi.

Framlegð N1 af vörusölu dróst saman um átta prósent á öðrum fjórðungi ársins og nam 2.796 milljónum króna á fjórðungnum. Er sérstaklega tekið fram í afkomutilkynningu að þróun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti og gengisstyrking krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins á öðrum fjórðungi ársins, en til samanburðar voru áhrif þessara þátta á afkomuna jákvæð á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur félagsins námu alls 16.077 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins sem er 3,9 prósenta hækkun frá sama tímabili árið áður. Á móti var rekstrarkostnaður félagsins 4.013 milljónir króna og jókst um 4,8 prósent á milli ára.

Arðsemi eigin fjár N1 var 10,8 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við 22,6 prósent á sama tíma í fyrra. Var eigið fé félagsins 12.471 milljón króna og eiginfjárhlutfallið 46,4 prósent í lok júnímánaðar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×