LeBron gat ekki tekið þátt í leiknum vegna veikinda og saknaði Cleveland því tveggja stórstjarna í leiknum en Kevin Love er enn frá vegna meiðsla.
Jafnræði var með liðunum framan af og var Cleveland með eins stiga forskot í hálfleik en gestirnir frá Chicago komu mun sterkari inn í seinni hálfleikinn og náðu um tíma tuttugu stiga forskoti í öruggum sigri.
Butler var með þrefalda tvennu með 18 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar en Wade var með 20 stig, níu fráköst og tíu stoðsendingar í leiknum.
Í liði Cleveland var það Kyrie Irving sem var atkvæðamestur í fjarveru James og Love með 34 stig ásamt því að taka níu fráköst og gefa sjö stoðsendingar.
Í Houston heldu heimamenn áfram að einfaldlega byggja á þeirri hugmyndafræði að skora meira en gestirnir en þrátt fyrir að fá á sig 130 stig á heimavelli unnu Rockets menn tólf stiga sigur á Minnesota Timberwolves 142-130.
Houston leiddi allt frá fyrstu mínútu og náði þegar mest var tuttugu stiga forskoti en tröllatvenna Karl-Anthony Towns með 37 stig og 22 fráköst hélt Úlfunum frá því að fá rassskellingu.
Í New York setti Carmelo Anthony niður sigurkörfuna þegar þrjú sekúndubrot voru eftir í sigri Knicks á Philadelphia 76ers.
Knicks léku án Kristaps Porziņģis í nótt og þurfti Carmelo því að taka meiri ábyrgð í sóknarleiknum. Var hann með 37 stig í leiknum og hitti úr 15/25 skotum sínum ásamt því að setja niður fimm af sjö vítaskotum sínum.
Þá töpuðu Pelíkanarnir frá New Orleans öðrum leik sínum í röð með vandræðagemsann DeMarcus Cousins innanborðs gegn Dallas Mavericks í nótt en Cousins hafði hægt um sig í leiknum með 12 stig og 15 fráköst.
Úrslit kvöldsins:
Sacramento Kings 85-99 Charlotte Hornets
Orlando Magic 105-86 Atlanta Hawks
New York Knicks 110-109 Philadelphia 76ers
Miami Heat 113-95 Indiana Pacers
Dallas Mavericks 96-83 New Orleans Pelicans
Cleveland Cavaliers 99-117 Chicago Bulls
Houston Rockets 142-130 Minnesota Timberwolves
Golden State Warriors 112-95 Brooklyn Nets