Viðskipti innlent

Helga hættir í Kastljósi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helga Arnardóttir hverfur af sjónvarpsskjám landsmanna í bili að minnsta kosti.
Helga Arnardóttir hverfur af sjónvarpsskjám landsmanna í bili að minnsta kosti. Vísir/Valli
Sjónvarpskonan Helga Arnardóttir hefur verið ráðin yfirritstjóri útgáfufélagsins Birtíngs. Þá mun hún ritstýra Mannlífi og hafa yfirumsjón með áframhaldandi stafrænni uppbyggingu.

Helga hverfur frá störfum á RÚV þar sem hún hefur verið í Kastljósi frá árinu 2014. Hún er annar af tveimur umsjónarmönnum Kastljóss sem hverfur til annarra verka á skömmum tíma. Baldvin Þór Bergsson var á dögunum ráðinn dagskrárstjóri númiðla og Rásar 2. 

Ekki liggur fyrir hver taka við stjórnartaumunum í Kastljósi en Lára Ómarsdóttir hefur fyllt í skarðið í þættinum undanfarið. 

Nokkrar breytingar urðu á Kastljósi í haust þegar fréttaskýringaþátturinn Kveikur hóf göngu sína. Þóra Arnórsdóttir og Helgi Seljan yfirgáfu Kastljós og fóru í Kveikisteymið en Helga varð eftir í Kastljósi ásamt Baldvini. Kveikur tók yfir Fésbókarsíðu Kastljóss, sem nú er ekki til, og heitir nú Kveikur.

Baldvin og Helga hverfa á næstunni af sjónvarpsskjám landsmanna, í bili.RÚV-kynning
Mikil áskorun fyrir Helgu

Í tilkynningu á vef Mannlífs segir að Helga muni ritstýra Mannlífi og hafa yfirumsjón með áframhaldandi stafrænni uppbyggingu. Birtíngur opnaði nýverið lífstílsvefinn mannlif.is, sem er sameiginlegur vefur allra miðla félagsins.

Hún muni starfa náið með núverandi ritstjórum tímarita Birtíngs, leiða aukið samstarf ritstjórna og marka ritstjórnarstefnu Mannlífs og mannlif.is. Fríblaðinu er dreift inn á öll heimili á höfuborgarsvæðinu og er aðgengilegt til niðurhals á vefnum.

„Ég hlakka til að hefja störf hjá Birtíngi og lít á það sem mikla áskorun að takast á við prentmiðla á þessum tímum og finna þeim tryggan farveg í síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi,“ segir Helga. 

„Það verður spennandi verkefni að leiða nokkur af vinsælustu tímaritum landsins inn á nýjar brautir í hinum stafræna heimi og koma með ferskt fríblað mánaðarlega um brýn samfélagsmál, sem varða okkur öll og málefni líðandi stundar.”

Helga hefur starfað í fréttaskýringaþættinum Kastljósi hjá Ríkisútvarpinu frá árinu 2014, og auk þess hefur hún framleitt og haft umsjón með heimildarþættinum Meinsærið um rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu og fjögurra þáttaröð um leikferil Eddu Björgvinsdóttur leikkonu.

Helga starfaði í 7 ár á Stöð 2 sem fréttamaður í sjónvarpi og útvarpi, vaktstjóri, fréttaþulur og dagskrárgerðarmaður í Íslandi í dag. Á Stöð 2 hafði hún umsjón með þáttunum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, Mannshvörf á Íslandi og Óupplýst lögreglumál.

Hún hefur starfað við blaðamennsku allt frá árinu 2002 og hóf störf sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 2004, þar til hún gekk til liðs við Stöð 2. Hún hlaut MA gráðu í International Journalism frá City University of London árið 2010 með áherslu á sjónvarps-og rannsóknarblaðamennsku. Hún er með BA gráðu í stjórnmálafræði og frönsku frá Háskóla Íslands og stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Gunnlaugur Árnason, stjórnarformaður Birtíngs, segir Helgu búa yfir mikilvægri reynslu á mörgum sviðum fjölmiðlunar. 

„Hjá Birtíngi starfar hæfileikaríkt fólk og Helga mun enn frekar styrkja ritstjórnarslagkraft félagsins.“

Helga hefur störf hjá Birtingi 2. janúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Þau voru ráðin í stjórnunarstöður hjá RÚV

Baldvin Þór Bergsson verður dagskrárstjóri númiðla og Rásar 2, Steinunn Þórhallsdóttir framkvæmdastjóri framleiðslu og ferla og Birgir Sigfússon framkvæmdastjóri miðla.

Enn að jafna sig eftir kosningarnar

Baldvin Þór Bergsson, einn af umsjónarmönnum Kastljóss og kosningasjónvarps RÚV, er enn að jafna sig eftir törn síðustu helgar. Baldvin hefur nóg fyrir stafni, en hann eignaðist sitt annað barn í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×