Skoðun
Árni Stefán Árnason.

Læknirinn, kýrin og kálfurinn

Árni Stefán Árnason skrifar

Árlegt áreiti matvælaframleiðenda með afurðir úr búfjáreldi fyrir manneldi eykst nú í auglýsingum á sjónvarpsskjám og í öðrum miðlum. Jólahátíðin er handan við hornið og á þeim tíma t.d. þykir sá ósiður góður siður, að leggja sér til munns kjötbita af föllnu dýri. Síðan tekur Þorrabröltið við og svo koll af kolli. Alltaf kemur nýtt tilefni, nýjar kjötátshvattningar frá þeim, sem græða á kjötsölu.

Öllum tólum til, að töfra fram löngun neytenda er beitt til að lokka hann að kjötborðinu. Fá að hann til að taka ákvörðun um að leggja dýrin sér til munns. Aðal galdrakarlinn nú er brosmildur og vinalegur læknir, sem ég lét síðast í gærkveldi pirra mig á skjánum. ,,Læknirinn í eldhúsinu“ en svo er þessi vinsæli læknir gjarnan nefndur, sem birtist reglulega á skjánum og lofar ágæti íslensks búfjáreldis. Í gær og oft áður með hvatningu um að landinn auki smjörneyslu sína. Í kjölfarið kom áróður frá SS um hamborgarhryggi, hryggi úr svínum sem alin eru við aðstæður, sem eru mjög gagnrýni verðar.

Er farið illa með kýr í mjólkurframleiðsu?
Fáir, en þó ætíð fleiri, eru meðvitaðir um þá sögu, sem hver dropi af mjólk hefur að geyma. Fyrir þá, sem ekki vita það upplýsist hér með að kýr eru sæddar ár eftir ár til þess að ala kálfa. Stuttu fyrir burð fer kýrin að framleiða mjólk, sem hana hlakkar eflaust til að leyfa kálfi sínum að sjúga af spenum sínum. Ég segi, að hana hlakki til og rökstyð það t.d. með því að staðfest er í dýravelferðarlögum að dýr séu skyni gæddir einstaklingar. Engum hefur tekist að sýna fram á að dýr kunni ekki að gleðjast eða hlakka til einhvers. Þvert á móti er hægt að færa sterk rök fyrir því að kýr bæði hlakki til einhvers og kunni að gleðjast.

Þegar kýrin hefur fætt kálf sinn tekur bóndinn kálfinn frá móður sinni (illa gert). Margar frásagnir eru um að kýr og kálfur kalli eftir hvort öðru við aðskilnaðinn. Sumir hafa lýst því sem örvæntingarfullu öskri lýkt og búast mætti við frá móður hvers ungabarn er tekið af.

Mjólk kálfsins er síðan notuð til smjörframleiðslunnar, sem læknirin hvetur til ,,meiri“ neyslu á og beinir vinsamlegu brosi sínu beint í augu þess sem á horfið. Auglýsingarnar eru úthugsaðar og mjög vandaðar. Dalaostaauglýsingin er mjög gott dæmi. Útkoman, osturinn er hins vegar óvönduð framkoma við mjólkurkýr.

Að baki smjörsins er saga, sem ég held að fáir myndu vilja kenna sig við. Saga þjáningar kúar og kálfs.

Það er ekki til eftirbreytni að leggja illri meðferð dýra lið. Mjólkurkú lifir að jafnaði miklu skemur en einstaklingar af sömu tegund, sem þurfa ekki að þola þetta linnulausa inngrip í líf þeirra.

Okkur líður líka illa
Mér og öðrum, sem hafna dýraáti líður illa þegar kjötauglýsingar birtast í landsmiðlunum því flest, sem valið hafa leið grænkerans eða veganismans vitum forsögu þeirra dýra, sem fallið hafa í sláturhúsinu. Verra er þó, að yfirgnæfandi líkur eru á því að dýrið sem gaf, óviljugt og óspurt, af sér kjötbitann leið öllu verr í langan tíma. Því er okkur ei vorkunn. Beinum orkunni í að tala rödd dýranna. Þessi pistill er slík viðleitni.

Aðventuáróðurinn
Kjötframleiðendur munu á næstu vikum leggja aukin þunga í að keppast um hylli kjötætunnar. Það er hennar að eiga samtal við samvisku sína: hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessum efnum. Ég vil ekki hafa það á minni samvisku að dýr hafi þurft að ljúka ævi sinni svo ég geti glatt bragðlauka mína. Það er siðferðislega óverjandi fyrir mig. Maðurinn er auk þess ekki skapaður sem kjötæta. Auðvelt er að sýna fram á það með því að rannsaka meltingarveg hans og meltingarlíffæri.

Gild röksemd úr ritningunum
Gild röksemd úr ritningunum kristninni segir eftir að Guð hafði skapað manninn: Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. ( fyrsta Mósebók) – Ég er ekki bókstafstrúarmaður en hef mjög gaman af því að velta viðurkenndum texta fyrir mér. Ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að framangreindur texti er sannfærandi. Þarna eru óumdeilanlega skýr skilaboð til kristinna.

Verði þér að góðu kæri lesandi í hinum fagra heimi grænkerans/veganismans. Sá lífstíll stuðlar að sátt við umhverfið, vernd lýðheilsu og hefur áhrif á ógnandi loftslagsbreytingar til batnaðar svo eitthvað sé nefnt. Er þetta ekki eftirsóknarvert?

Höfundur er dýraverndarlögfræðingur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.