Umfjöllun, viðtöl og myndir: Víkingur - Selfoss 25-36 | Stórsigur Selfyssinga í Víkinni

Gabríel Sighvatsson skrifar
Teitur Örn Einarsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss.
Teitur Örn Einarsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss. Vísir/Anton
Selfyssingar náðu í sinn sjöunda sigur í deildinni þegar þeir sóttu botnlið Víkinga heim í Víkina.

Víkingur missti gestina fljótt fram úr sér og sá nánast aldrei til sólar. Selfoss var miklu betra liðið og átti sigurinn fyllilega skilið. Víkingar þurfa hinsvegar að fara að spýta í lófana ef þeir ætla sér einhverja hluti í þessari deild.

Sóknarleikurinn gekk ágætlega hjá heimamönnum en varnarleikurinn þarf líka að ganga upp sem var alls ekki tilfellið í dag.

Mörkin komu á færibandi fyrir Selfyssinga og þá var Helgi Hlynsson drjúgur í seinni hálfleik og hlau hann mikla hjálp frá mönnunum fyrir framan sig.

Af hverju vann Selfoss?

Það er svo hrikalega góður andi í liðinu og leikgleðin skín úr andlitum leikmanna. Þeir voru harðir í horn að taka og koma það illa við heimamenn.

Sóknarmönnum Selfyssinga héldu engin bönd þó að varnarmenn andstæðinganna hafi vissulega getað gert meira til að halda aftur af þeim.

Hverjir stóðu upp úr?

Teitur Örn Einarsson var markahæstur í liði Selfoss með 10 mörk og átti flottan leik. Helgi var með 36 prósent vörslu í markinu. Á hinn bóginn var Hrafn Valdísarson með 35 prósent og Jón Hjálmarsson markahæstur með sex mörk.

Annars voru einstaka menn ekki að standa mikið fram úr. Liðsheildin hjá Selfossi er það góð og það eiga allir þátt í henni.

Hvað gekk illa?

Það var ekki nein varsla í fyrri hálfleik sem staðan endurspeglaði í hálfleik 19-14. Vörnin hjá Selfossi tók við sér í seinn hálfleik og á meðan varnarleikur Víkinga gerði lítið.

Það virtist koma Víkingum á óvart hversu mikil harka var í gestunum og þeir náðu ekki að svara því í sínum varnarleik.

Hvað gerist næst?

Selfoss mætir Stjörnunni í erfiðum leik en Víkingar hefja 2. umferð deildarinnar með heimsókn í Dalhús en Fjölnismenn náðu einmitt í sinna fyrsta sigur í dag.

Mörk Víkings: Jón Hjálmarsson 6, Egidijus Mikalonis 5, Ægir Hrafn Jónsson 3, Víglundur Jarl Þórsson 3, Kristófer Andri Daðason 2, Birgir Már Birgisson 2, Magnús Karl Magnússon 1, Bjartur Heiðarsson 1, Guðmundur Birgir Ægisson 1, Hlynur Óttarsson 1.

Mörk Selfoss: Teitur Örn Einarsson 10, Einar Sverrisson 7, Haukur Þrastarson 5, Hergeir Grímsson 4, Árni Steinn Steinþórsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 3, Alexander Már Egan 3, Sverrir Pálsson 1.

Patrekur: Stjórnuðum leiknum

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var auðvitað virkilega ánægður með leik sinna manna.

„Þetta eru tvö góð stig, við spiluðum vel, stjórnuðum leiknum og ég er sáttur.“

„Það er búinn að vera mjög góður andi í liðinu, við æfðum vel og ég er ánægður með það. En eins og ég segi, það er alltaf næsti leikur, leikur gegn Stjörnunni á fimmtudaginn og það þarf að byrja strax að hugsa um hann.“

„Varðandi þennan leik fannst mér við leysa þetta mjög vel sem lið. Þeir voru í sjö og sex sem við vissum og æfðum vel.“

„Nei, ég ætla ekki að tjá mig um dómgæslu,“ sagði Patti aðspurður út í ummæli Gunnars, þjálfar Víkings um dómara leiksins.

Selfoss liðið er á góðri siglingu og virðist alveg eiga erindi í toppbaráttuna í ár.

„Þetta er mjög jafnt, til dæmis, töpum við gegn Gróttu en vinnum FH. Þetta er allt opið og maður verður bara að halda áfram. Okkur var spáð 7. sæti og erum núna í fimmta, en maður vill alltaf horfa upp á við.“

„Við gleðjumst í dag yfir góðum sigri en það þarf að taka einn leik í einu og ég viðurkenni það að ég er strax byrjaður að hugsa um næsta leik þar sem við spilum á okkar frábæra heimavelli þar sem verður pottþétt fullt hús, það er svo mikill áhugi,“ sagði Patrekur.

Að lokum vildi Patti þakka öllum þeim stuðningsmönnum sem ferðuðust með liðinu í dag í höfuðborgina.

„Ég vil líka þakka fólkinu sem kom núna, við áttum meirihlutann af stúkunni í dag og það er ótrúlegt.“ sagði Patti að lokum.

Gunnar: Vonbrigði að fá svona skell

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings, var auðvitað vonsvikinn með niðurstöðuna.

„Þetta eru vonbrigði, að fá svona skell. Varnarleikurinn hjá okkur er bara ekki að virka allan lekinn. Við fáum á okkur 19 mörk í fyrri hálfleik og annað eins í seinni hálfleik og það er erfitt.“

„Sóknin var ágæt í fyrri hálfleik, svo fer hún í smá frost í byrjun seinni. Þetta er alltof mikill munur, við dettum alltof fljótt úr leiknum.“

Þetta er annað stóra tap Víking í röð sem eru núna eina liðið í deildinni án sigurs og sitja sem fastast á botni deildarinnar.

„Það er ekki gott að tapa með stórum mun en það svíður jafn sárt að tapa með einu, þetta er klárlega hlutur sem við þurfum að laga. Við reynum að halda áfram að vinna með það, við getum ekki gert neitt annað.“

Það voru pústrar í mönnum og heyrðist á heimamönnum að þeir voru ekki sammála dómurum leiksins í mörgum tilvikum.

„Ég ætla ekki að fara neitt út í dómaramál, við töpum með 10, 11 mörkum. Það eru atvik á báða bóga í leiknum sem mér fannst bara ekki rétt dæmt en það verða aðrir að skoða,“ sagði Gunnar.

Teitur Örn: Geggjað að hafa svona stuðningsmenn

„Ég er rosalega ánægður með þetta, við spiluðum flottan leik allan tímann, mættum af krafti í byrjun leiks og náðum strax forystunni. Við spiluðum grimma vörn og góðan sóknarleik að skora 19 mörk í fyrri hálfleik finnst mér rosalega gott,“ sagði Teitur Örn Einarsson, markahæsti leikmaður Selfoss.

Okkur líður vel saman og við eyðum miklum tíma saman í hverri viku og þetta er æðislegt.“ sagði Teitur sem var ánægður með góða mætingu Selfyssinga.

„Þetta er frábært, geggjað að hafa svona stuðningsmenn. Þetta er allt fólk sem við þekkjum, 90 prósent af okkur eru heimamenn, þeim finnst gaman að koma og horfa á okkur og það er bara frábært.“

„Auðvitað, stefnan er alltaf sett hátt og maður verður að setja sér há markmið og reyna að ná þeim, annars kemst maður ekki neitt.“ sagði Teitur að lokum.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Víkinni og tók myndirnar hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira