Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Fram 39-26 | Aldrei spurning hjá FH-ingum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skorar eitt sex marka sinna.
Óðinn Þór Ríkharðsson skorar eitt sex marka sinna. Vísir/Anton
FH náði þriggja stiga forskoti á toppi Olís-deildarinnar eftir afar sannfærandi 39-26 sigur gegn Fram í Kaplakrika en þetta er í annað sinn í vetur sem Framarar steinliggja gegn FH.

Í raun gerði FH út um leikinn strax í fyrri hálfleik og leiddi með tíu mörkum þegar leikmenn gengu inn til búningsklefa. Var þó skárra en fimmtán marka forskot FH-inga í hálfleik í fyrri leik liðanna í vetur í Safamýrinni.

Þegar mest var fór munurinn upp í fjórtán mörk en seinni hálfleikur var aðeins formsatriði og gat Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, leyft sér að hvíla menn og dreifa álaginu fyrir leik í EHF-bikarnum um helgina.

Jóhann Karl Reynisson og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru atkvæðamestir í liði FH með tíu mörk hvor en í markinu átti Ágúst Elí Björgvinsson stórleik með 22 varða bolta.

Afhverju vann FH?

Gæðin eru einfaldlega meiri í leikmannahóp FH-inga og var það sama hver kom inn á, það voru allir að skila sínu og meira til í leiknum í kvöld. Sem dæmi kom Gísli ekki inn fyrr en undir lok fyrri hálfleiks en var með tíu mörk í leiknum.

Varnarleikurinn var flottur og þvinguðu þeir oft Fram í erfið skot sem gerði Ágústi auðveldara fyrir í markinu.

Í sóknarleiknum áttu þeir svo svör við öllum tilraunum Fram sem breyttu oft um varnarleik en gátu ekki fundið stopp.

Hverjir stóðu upp úr?

FH-liðið í heild sinni á skilið þennan lið en það er ekki amalegt að geta geymt leikmenn á borð við Gísla á bekknum og kallað á hann til að hvíla leikmenn. Nýtti hann þær mínútur sem hann fékk afar vel.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Fram var bara lélegur, það verður ekki talað í kring um það og gerði það markvörðum liðsins afar erfitt fyrir. Valtýr Már Hákonarson tók nokkra bolta í fyrri en það var ekki fyrr en leikurinn var búinn og leikmenn að bíða eftir lokaflautinu að þeir fóru að taka fleiri bolta.

Hvað gerist næst?

FH mætir Tatron Presov frá Slóvakíu í 3. umferð EHF-bikarsins í Kaplakrika á laugardaginn og FH-ingar geta byggt ofan á þessum leik þegar kemur að því þegar þeir þurfa að vinna upp þriggja marka forskot gestanna.

Framarar sem hafa aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum taka á móti Stjörnunni á heimavelli en þeir fá nú ellefu daga til að fara yfir hvað fór úrskeiðis í dag.

Halldór: Var ekki viss hvernig yrði að mótivera strákana„Ég er bara virkilega stoltur af því hvernig strákarnir komu inn í þetta miðað við álagið og leikina sem eru framundan,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, sáttur að leikslokum.

FH gerði út um leikinn strax á upphafsmínútunum.

„Við ræddum um að halda einbeitingu, gegn liði eins og Fram þarftu að halda einbeitingu allan leikinn þar sem þeir eru með hörku lið og flotta leikmenn sem geta átt frábæra leiki.“

Halldór fagnaði því að geta dreift álaginu í kvöld.

„Það er búið að vera þétt dagskrá undanfarna daga, fimm leikir á tveimur vikum auk ferðalaga til Rússlands og Slóvakíu. Það er einn leikur eftir í þessari þéttu törn en ég get ekki kvartað yfir framlagi strákanna.“

Halldór sagði að leikmenn þyrftu að vera fljótir niður á jörðina á ný.

„Það hefur verið mikið rætt um þennan leik á laugardaginn og ég var ekki viss hvernig það gengi að mótivera strákanna. Ég gat náð að rótera leikmönnum aðeins sem er jákvætt þar sem þetta verða gríðarleg átök ef við ætlum að vinna um helgina.“

Guðmundur Helgi: Eigum greinilega ekki séns í þetta frábæra FH-lið„Við eigum bara greinilega ekki séns í þetta frábæra FH-lið. Við erum stemningslið og það var enginn karkater í okkur í dag,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, hreinskilinn er hann var spurður út í frammistöðu kvöldsins.

„Þeir voru yfir á öllum sviðum á sama tíma og við vorum bara ekki tilbúnir. Sem betur fer þurfum við ekki að spila við þá aftur fyrr en vonandi í vor. Ég hef núna nægan tíma til að finna lausnir.“

Fram reyndi nokkrar mismunandi útfærslur í varnarleiknum en FH átti alltaf svör.

„Þeir fundu alltaf glufur og við hjálpuðum markmönnunum okkar ekki neitt. Varnarleikurinn var bara hræðilegur í alla staði, við reyndum 3-4 lausnir í dag en það var sama hvað við gerðum.“

Hann sagðist sjá eina tilvalna lausn til að gera atlögu að FH.

„Við þurfum að safna saman peningi í Safamýrinni til að kaupa Gústa (innsk. Ágúst Elí, markmann FH). Ekki það að við séum með lélega markverði, þá getur hann ekki spilað gegn okkur,“ sagði Guðmundur og bætti við:

„Þegar markvörður ver 50-60% skota í leiknum þá er erfitt að vinna nokkurn leik.“

Óðinn: Vildum sýna karakter strax í byrjun„Við mættum með læti inn í leikinn, náðum góðu forskoti og gerðum út um leikinn strax í byrjun,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, hornamaður FH, sem átti stórfínan leik í kvöld.

„Við töluðum um það að sýna karakter í byrjun, ná smá forskoti og þá gætum við landað þessum sigri. Það hefur vantað allan karakter í okkur í þessum tapleikjum.“

Óðinn kvaðst ekki vera farinn að finna fyrir þreytu þrátt fyrir þétta leikjadagskrá.

„Þetta er bara skemmtilegt verkefni og okkur langar að komast lengra, við náðum að rótera vel í dag og gefa öllum mínútur en við erum ekkert farnir að finna fyrir þreytu.“

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Kaplakrika í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira