Körfubolti

Blikastelpur skoruðu átta síðustu stigin og slógu Haukaliðið út úr bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikaliðið er að gera frábæra hluti undir stjórn Hildar Sigurðardóttur.
Blikaliðið er að gera frábæra hluti undir stjórn Hildar Sigurðardóttur. Vísir/Ernir
Blikar eru komnar í átta liða úrslit Maltbikars kvenna í körfubolta eftir fjögurra stiga sigur á Haukum, 70-66, í Smáranum í dag.

Nýliðar Blika unnu sannfærandi sigur í deildarleik liðanna á dögunum og það breyttist ekki í dag en það var samt miklu meiri spenna í þessum leik en í þeim fyrir ellefu dögum.

Í raun stefndi í það að Haukarnir ætluðu að hefna fyrir tapið í deildinni en frábær endakafli tryggði Blikum sigurinn.  

Haukakonur voru fjórum stigum yfir, 66-62, þegar tvær og hálf mínúta var eftir en Blikaliðið skoraði átta síðustu stig leiksins og tryggði sér sigurinn.

Ivory Crawford skoraði 21 stig og tók 11 fráköst fyrir Blikaliðið í leiknum en Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 12 stig og 10 fráköst og Telma Lind Ásgeirsdóttir skoraði 10 stig þar á meðal rosalega mikilvæga þriggja stiga körfu á lokakaflanum.

Helena Sverrisdóttir var langatkvæðamest í Haukaliðinu með 22 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar en Cherise Michelle Daniel skoraði 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×