Viðskipti innlent

Tugir missa vinnuna hjá CCP

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Vísir/GVA
Um þrjátíu starfsmönnum tölvuleikjaframleiðandans CCP hér á landi hefur verið sagt upp störfum til viðbótar við tugi á starfstöðvum erlendis. Allt í allt munu um hundrað missa vinnuna að óbreyttu. Skrifstofu CCP í Atlanta verður lokað, sömuleiðis verða breytingar á starfseminni í Shanghai auk þess sem myndver í Newcastle á Englandi verður selt.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fjármálastjóra CCP með starfsmönnum í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Grandagarði nú síðdegis. Samkvæmt heimildum Vísis var hljóðið eins og vænta mátti á slíkum fundi en í grunninn ætlar CCP að minnka umsvif sín á sviði sýndarveruleika og einbeita sér að tölvuleiknum Eve Online í enn meiri mæli.

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, er í Atlanta þessa stundina og óskaði sökum anna eftir tölvupósti með spurningum til að svara. Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, er einn þeirra sem missa vinnuna við breytingarnar.

„Það er alltaf erfitt að standa í svona aðgerðum en þær eru mik­il­væg­ar og ef við vilj­um að fyr­ir­tækið nái því að verða 30 ára þá þurf­um við stund­um að gera stefnu- og skipu­lags­breyt­ing­ar,“ segir Hilmar Veigar í samtali við Mbl.is.




Tengdar fréttir

CCP segir upp 15 starfsmönnum

Tölvuleikjafyrirtækið CCP sagði í gær upp um 15 starfsmönnum í Atlanta, sem unnu að þróun fjölspilunarleiksins World of Darkness.

CCP segir upp 49 starfsmönnum

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur lagt niður 49 störf hjá fyrirtækinu og þar af 27 í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.

CCP segir upp 20 prósent starfsmanna

Íslenska fyrirtækið CCP, sem framleiðir meðal annars tölvuleikinn Eve Online sem hefur notið gríðarlegra vinsælda um allan heim, hefur ákveðið að segja upp tuttugu prósent starfsmanna en um 600 starfa hjá fyrirtækinu núna. Þrjátíu og fjórum verður sagt upp í Reykjavík, flestir þeirra Íslendingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×