Viðskipti innlent

Hægt að tappa um 100 milljörðum af eigin fé bankanna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Flestir stjórnmálaflokkar hafa lofað því að taka tugi til hundrað milljarða króna út úr bankakerfinu til þess að greiða niður ríkisskuldir og fjármagna uppbyggingu, sér í lagi í samgöngur.
Flestir stjórnmálaflokkar hafa lofað því að taka tugi til hundrað milljarða króna út úr bankakerfinu til þess að greiða niður ríkisskuldir og fjármagna uppbyggingu, sér í lagi í samgöngur. Vísir
Áætla má að umfram eigið fé í stóru viðskiptabönkunum þremur hafi verið um 97 milljarðar króna miðað við eigin­fjárkröfur Fjármálaeftirlitsins og eiginfjárauka stjórnenda bankanna í lok júnímánaðar. Þar af var umfram eigið fé í ríkisbönkunum um 60 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings Samtaka fjármálafyrirtækja.

Sérfræðingar sem Markaðurinn ræddi við telja afar skynsamlegt að losað verði um fjármuni sem bundnir eru í bönkunum þremur – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum – á næstu árum og þeir greiddir til eigenda í formi arðs. Ríkið, sem á Íslandsbanka og Landsbankann að fullu, eigi að nýta arðgreiðslurnar til þess að greiða niður skuldir. „Það yrði glórulaust að nýta þær til þess að standa undir auknum ríkisútgjöldum,“ segir Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá Capacent.

Flestir stjórnmálaflokkar sem eru í framboði í þingkosningunum á laugardag hafa lagt til að eigið fé viðskiptabankanna verði minnkað um tugi til hundrað milljarða króna, áður en þeir verði seldir, til þess að greiða niður skuldir ríkisins og fjármagna uppbyggingu innviða og önnur kosningaloforð.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir ekki „hundrað í hættunni“ þó að eiginfjárhlutföll bankanna myndu lækka aðeins. Séu hlutföllin hins vegar of lág geti nokkurra prósenta útlánatöp komið illa niður á bönkunum.

„Það yrðu ekki hundrað í hættunni“ þó að eiginfjárhlutföll bankanna myndu lækka aðeins, segir.Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.
Útreikningar Yngva Arnar leiða í ljós að miðað við áhættuvegnar eignir bankanna, þær eiginfjárkröfur sem gerðar eru til þeirra auk eiginfjárauka stjórnenda í lok júnímánaðar síðastliðins, þá geti viðskiptabankarnir greitt allt að 97 milljarða króna í arð til eigenda sinna. Er þá ekki tekið tillit til mögulegrar útgáfu bankanna á víkjandi skuldabréfum, sem gæti aukið svigrúm þeirra verulega til frekari arðgreiðslna.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að bankarnir gætu greitt hluthöfum hátt í 200 milljarða króna í arð á næstu árum ef miðað væri við að eiginfjárhlutfall bankanna lækkaði í 18 prósent og bankarnir réðust í verulega útgáfu víkjandi bréfa. Viðmælendur Markaðarins benda á að bankarnir muni flýta sér hægt í þessum efnum og lækka eiginfjárhlutfallið sitt í varfærnum skrefum.

Jón Þór tók fram að Fjármálaeftirlitið myndi ekki heimila bönkunum að greiða arð í það miklum mæli að eiginfjárhlutfallið færi undir umrædd 18 prósent.

Sérfræðingur sem Markaðurinn ræddi við segir ekki ósennilegt að Arion banki hafi meira bolmagn en hinir bankarnir tveir til þess að greiða út arð. Ástæðan sé einkum sú að bankinn hafi ekki kosið að greiða út arð til eigenda undanfarin tvö ár. Fram kom í fjárfestakynningu bankans í tilefni af hálfsársuppgjöri hans í ágúst að viðbótar eigið fé hefði numið 46 milljörðum króna í lok júnímánaðar að teknu tilliti til 1,5 prósenta varúðarauka. Ljóst er að arðgreiðslur bankans munu að stórum hluta renna til ríkisins á grundvelli afkomuskiptasamnings.  





Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, vildi ekki tjá sig um mögulega arðgreiðslugetu bankanna, en Bankasýslan hefur samkvæmt heimildum Markaðarins lagt mat á svigrúm bankanna til þess að greiða út arð.

Hertar eiginfjárkröfur

Yngvi Örn segir að þegar bankarnir þrír voru endurreistir árið 2009 hafi Fjármálaeftirlitið gert kröfu um að eiginfjárhlutfall þeirra yrði að lágmarki 16 prósent af áhættuvegnum eignum. Eiginfjárhlutfall bankanna hafi farið hækkandi frá þeim tíma og verið í lok síðasta árs á bilinu 25 til 30 prósent. Jafnframt hafi þær eiginfjárkröfur sem gerðar eru til þeirra verið hertar í kjölfar hrunsins, meðal annars með svonefndum Basel-reglum. Afleiðingin sé sú að sú heildareiginfjárkrafa sem Fjármálaeftirlitið gerir til bankanna þriggja sé nú á bilinu 19 til 21 prósent og verði raunar, að öðru óbreyttu, á bilinu 20 til 23 prósent í lok þessa árs.

Til viðbótar umræddum eiginfjárkröfum segir hann stjórnendur bankanna stefna að því – af varúðarástæðum – að hafa eigið fé bankanna nokkuð yfir þeim mörkum sem felast í kröfum FME. Slíkur eiginfjárauki stjórnenda, eins og hann nefnist, sé allt að 1,5 prósent samkvæmt ársskýrslum bankanna. „Að teknu tilliti til þess var eiginfjárstaða allra bankanna talsvert yfir tilskildu lágmarki eða 4,5 prósent hjá Íslandsbanka, 4,9 prósent hjá Arion banka og 8,1 prósent hjá Landsbankanum um síðustu áramót. Í fjárhæðum samsvarar þetta til um 135 milljarða króna,“ útskýrir Yngvi Örn.

Viðmælendur Markaðarins segja að sterk eiginfjárstaða bankanna geri það að verkum að ríkið geti á komandi árum endurheimt tugi milljarða króna sem bundnir eru í bönkunum með útgreiðslu arðs. Eftir sem áður verði bankarnir áfram vel fjármagnaðir, bæði í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Hins vegar skipti máli hvernig ríkið ráðstafi fjármununum.

„Það ætti að vera algjört forgangsatriði að nota þá fjármuni sem teknir verða út úr bönkunum til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það yrði glórulaust að nýta þá til þess að standa undir auknum ríkisútgjöldum. Um leið og skuldir ríkissjóðs eru greiddar niður eykst hins vegar svigrúmið til aukinna ríkisútgjalda því þá fara ekki eins miklir fjármunir í vaxtakostnað,“ segir Snorri.

Myndi ýta undir þenslu

Friðrik Már segir afar óvarlegt að byggja varanlega útgjaldaaukningu á arðgreiðslum úr bönkunum. Slíkar arðgreiðslur séu einskiptistekjur en aukin ríkisútgjöld séu varanleg til lengri tíma. „Ef við segjum að arðgreiðslurnar verði notaðar til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þá sparast vaxtagreiðslur og það er í raun hið varanlega svigrúm sem skapast vegna arðgreiðslnanna. Það eru einu varanlegu tekjuáhrifin.“

Friðrik Már bætir auk þess við að út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði sé ekki sérlega heppilegt að fjármagna aukin ríkisútgjöld með arðgreiðslum úr bönkunum. „Það er, enn sem komið er að minnsta kosti, enginn slaki í hagkerfinu. Þannig að það yrði ákjósanlegast að fjármagna útgjaldaaukningu með sköttum til þess að koma í veg í fyrir þensluáhrif. Fjármögnun með arðgreiðslum úr bankakerfinu myndi bara virka sem peningainnspýting í hagkerfið og ýta undir þenslu. Það þyrfti þá að grípa til einhverra mótvægisaðgerða.“

Seðlabanki Íslands tekur fram í nýrri fjármálastöðugleikaskýrslu sinni að eiginfjárstaða viðskiptabankanna þriggja hafi verið góð og eiginfjár- og vogunarhlutföll há í lok júnímánaðar. Eiginfjárhlutfall bankanna hafi að meðaltali verið 26,6 prósent og lækkað lítillega frá áramótum vegna arðgreiðslna og hækkunar áhættugrunns útlána. Sterk eiginfjárstaða leiði til þess að „einhverjir möguleikar eru fyrir hendi til frekari arðgreiðslna eða annarrar ráðstöfunar eigin fjár“, að því er segir í skýrslunni. Það verði hins vegar að gerast í samræmi við kröfur um eiginfjárgrunn með fullum eiginfjáraukum og lausafjárstöðu.

Seðlabankinn vildi ekki veita viðtal um mögulegar arðgreiðslur úr bönkunum þegar eftir því var leitað. Gaf bankinn þá skýringu að hann vildi ekki blanda sér í umræðu um kosningaloforð stjórnmálaflokkanna fáeinum dögum fyrir kjördag.

„Það yrði glórulaust að nýta þær til þess að standa undir auknum ríkisútgjöldum,“ segir Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá Capacent.
Arðsemin ekki viðunandi

Snorri segir að eiginfjárhlutfall íslensku bankanna sé afar hátt, sér í lagi í alþjóðlegum samanburði, og eiginfjárkröfur sem gerðar eru til þeirra strangar. Í ljósi smæðar bankanna sé jafnframt afar erfitt fyrir þá að ná viðunandi arðsemi af grunnrekstri. „Það gæti því verið skynsamlegt að taka út umfram eigið fé úr bönkunum og skoða eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins í mjög gagnrýnu ljósi, en hún má ekki vera svo há að hún komi niður á rekstrarhæfi og samkeppnishæfni innlendra innlánsstofnana, ef ætlunin er að selja þá erlendum fjárfestum. Þá yrði staða bundins fjármagns lægri og arðsemi hærri.

Of há eiginfjárkrafa getur jafnframt ógnað stöðugleika fjármálakerfisins líkt og vanfjármagnaðar innlánsstofnanir með því að draga úr rekstrarhæfi innlendra innlánsstofnana og gera þær ósamkeppnishæfar.“

Að mati Snorra yrðu bankarnir áfram „gríðarlega vel“ fjármagnaðir þó svo að þeir greiddu út tugi milljarða króna í arð. „Og það sem meira er, þá er þetta allt raunverulegt eigið fé, ólíkt mörgum bönkum erlendis sem búa yfirleitt við hærra hlutfall víkjandi lána. Íslensku bankarnir eru mjög vel fjármagnaðir í alþjóðlegum samanburði.“

Það rímar vel við umfjöllun Danske Bank í nýlegri skýrslu sinni um íslensku bankana, en þar er tekið fram að eiginfjárstaða þeirra sé „umtalsvert“ sterkari en eiginfjárstaða norrænna banka.

Friðrik Már segir að því minna eigið fé sem bundið er í bönkunum, því meiri sé áhættan í rekstrinum. „Það er mjög eðlilegt að arðsemi eigin fjár sé lægri hjá banka sem býr til dæmis við 30 prósenta eiginfjárhlutfall heldur en hjá banka með 10 prósenta eiginfjárhlutfall. Áhættan í rekstri síðarnefnda bankans er mun meiri og þess vegna þarf arðsemi hans á eigið fé að vera meiri í prósentum talið.

„Það gæti verið í lagi að draga eitthvað úr þessu mikla eigin fé sem er bundið í íslensku bönkunum. Það yrðu ekki hundrað í hættunni þó að eiginfjárhlutfall bankanna lækkaði aðeins. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að bankar eigi að búa við 25 til 30 prósenta eiginfjárhlutfall eins og önnur fyrirtæki. Ef eiginfjárhlutfallið er of lágt, eins og það var víða um heim á árunum fyrir fjármálakreppuna, þá geta nokkurra prósenta útlánatöp einfaldlega sett bankana á hliðina. Þegar eigið féð er of lítið myndast hvatar til óhóflegrar áhættutöku, enda treysta bankarnir því að ríkið hlaupi undir bagga ef bjátar á.“

Greitt 192 milljarða í arð

Arðgreiðslur viðskiptabankanna hafa samtals numið 191,9 milljörðum króna frá árinu 2013, að því er fram kemur í ársskýrslu Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar af hefur hlutur ríkissjóðs numið 156,6 milljörðum króna.

Í fyrra greiddu bæði Íslandsbanki og Landsbankinn út arð, en ekki Arion banki, líkt og áður sagði. Íslandsbanki og Landsbankinn greiddu báðir út reglulegan arð, sem samþykktur var á aðalfundum bankanna, en auk þess greiddi Íslandsbanki út 27 milljarða króna sérstakan arð sem samþykktur var á hluthafafundi í desember. Í ársskýrslu Bankasýslunnar er rakið að vinna bandaríska fjárfestingabankans JP Morgan, sem var ráðinn haustið 2016 til þess að veita bankanum fjármálaráðgjöf, hafi meðal annars leitt til þess að bankinn ákvað að greiða ríkissjóði umrædda sérstaka arðgreiðslu.

Samþykktar arðgreiðslur Íslandsbanka og Landsbankans á aðalfundum þessa árs námu samtals 35,2 milljörðum króna.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×