Skoðun

Átján

Elísabet Brynjarsdóttir skrifar
Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Markmið dagsins er að vekja athygli á geðheilbrigðismálum og að fræða almenning. Sýnt hefur verið fram á að vitundarvakning og fræðsla getur haft jákvæð áhrif í samfélaginu, allt frá upprætingu fordóma yfir í aukinn vilja einstaklinga til að leita sér aðstoðar. Undanfarið hefur umræða um geðheilbrigðismálefni og geðheilbrigðiskerfið verið í brennideplinum í pólitík og í dag eru einmitt átján dagar í næstu Alþingiskosningar.

Talan átján. Sú tala er mjög mikilvæg þegar kemur að málefnum geðheilbrigðiskerfisins. Á flestum heilsugæslum landsins er boðið upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn, þar til þau verða átján. Þá þurfa þau að borga. Aldursbilið 18 til 25 ára er það sem við verðum að beina sjónum okkar að, því það er á þeim aldri sem algengast er að geðsjúkdómar komi fram. Helsta dánarorsök ungra karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára eru sjálfsvíg og samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru á Íslandi um aldamótin hefur helmingur íslenskra ungmenna á aldrinum 16 til 24 ára hugsað um að enda líf sitt, auk þess sem einn af hverjum tíu þeirra hefur gert eitthvað til að skaða sig.

Í þessu samhengi má nefna að sálfræðiþjónusta í háskólum landsins er verulega af skornum skammti. Við Háskóla Íslands starfar til að mynda einn sálfræðingur í hálfu stöðugildi fyrir um það bil 13.000 nemendur. Sálfræðiþjónusta er þar að auki ekki hluti af almannatryggingakerfinu á Íslandi og er því ekki niðurgreidd. Af þeim ástæðum er hætt við því að þetta aldursbil, sem hefur að jafnaði ekki mikið milli handanna, hafi hreinlega ekki tök á að verða sér úti um sálfræðiþjónustu.

Átján dagar. Stjórnarsáttmáli fráfarandi ríkisstjórnar setur geðheilbrigðismál í forgang og í gildi er aðgerðaáætlun. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum eiga börn og fullorðnir að geta nálgast sálfræðing á fimm af hverjum tíu heilsugæslustöðvum. Sú áætlun hefur ekki staðist en í lok þessa árs verða sálfræðingar á heilsugæslustöðvum, sem sinna átján ára og eldri, þrír talsins á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir þau miklu framfaraskref er hraði umbóta í geðheilbrigðismálefnum ekki nægur, en hann ræðst af því fjármagni sem varið er í málaflokkinn. Enn sem komið er hefur ekki nægilegu fjármagni verið varið í þennan málaflokk og þessi fögru loforð hafa því reynst innantóm. Nú eru átján dagar til stefnu og í tilefni dagsins vil ég sjá tilvonandi alþingismenn sameinast um geðheilbrigði landsins í gjörðum sínum á þingi eftir kosningar. Fjármagnið er til staðar og svo virðist sem viljinn sé það líka. Gerum eitthvað í þessu.

Í lokin vil ég hvetja þá sem upplifa erfiðar hugsanir að leita sér aðstoðar. Það er mikilvægt að við ræðum þessar hugsanir og það eru ýmis hjálpleg úrræði í boði. Fyrsti viðkomustaður getur verið heilsugæslan þín. Geðhjálp býður einnig upp á ókeypis ráðgjöf. Þá ber einnig að nefna hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjall Rauða krossins þar sem við getum rætt erfiðar hugsanir nafnlaust. Þetta fyrsta skref getur verið erfitt að stíga, en það er engu að síður mikilvægt.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og formaður Hugrúnar geðfræðslufélags.

X




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×