Innlent

Þetta eru málin sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar á ríkisráðsfundi í fyrradag.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar á ríkisráðsfundi í fyrradag. Vísir/Stefán
Þjóðarsjóður til að mæta fjármálaáföllum, afnám reglna um uppreist æru og heildarendurskoðun á lögum um ferðamál eru á meðal þeirra 188 mála sem ríkisstjórnin ætlar að leggja fyrir á Alþingi í þessum vetri.

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var birt á vef stjórnarráðsins í gærkvöldi þar sem fram kemur hvaða mál hver og einn ráðherra hyggst leggja fyrir með áætluðum tímasetningum. Þing var sett í gær.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. Fimm mál.

Forsætisráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp um stofnun á sérstökum þjóðarsjóð í febrúar. Sjóðnum yrði ætlað að „byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu“.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Fjórtán mál.

Frá dómsmálaráðherra er meðal annars von á frumvarpinu að breytingum á almennum hegningarlögum til að afnema ákvæði um uppreist æru sem mikil umræða hefur átt sér stað um að undanförnu.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild forseta Íslands til að veita manni sem fengið hefur refsidóm sem hefur í för með sér að hann missi borgaraleg réttindi sín uppreist æru verði felld úr almennum hegningarlögum.

Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra hefur staðið í ströngu vegna umræðu um uppreist æru.Vísir/Ernir
Ráðherrann stefnir einnig að því að fella niður bann við ýmis konar starfsemi á ákveðnum helgidögum þjóðkirkjunnar. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í febrúar standist áætlunin.

Endurupptökunefnd verður lögð niður verði frumvarp dómsmálaráðherra að lögum. Samkvæmt því verður settur á fót sérdómstóll sem skera á úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðhera. Sextán mál.

Stærsta málið sem ferðamálaráðherra ætlar að leggja fram á þessum þingvetri er vafalaust heildarendurskoðun á gildandi lögum um skipan ferðamála á Íslandi. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp þess efnis í nóvember.

Einnig leggur hann til að starfræktur verði Flugþróunarsjóður til að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Frumvarp þess efnis er háð niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA um starfsemi sjóðsins sem beðið er eftir.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.vísir/ernir
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. Sextán mál.

Á meðal helstu mála félagsmálaráðherra er endurflutt frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi þeirra. Íslensk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að draga lappirnar með að innleiða samninginn.

Í frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar er lagt til að lífeyristökualdur í almannatryggingum verði hækkaður í áföngum úr 67 árum í 70 ár yfir 24 ára tímabil. Þá er lagt til sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega í því skyni að draga úr áhrifum atvinnutekna á fjárhæð ellilífeyris

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsáðherra. 37 mál.

Auk fjárlaga og fjármálaáætlunar leggur fjármálaráðherra til nokkur stór mál. Þar á meðal eru frumvarp um að ferðaþjónustutengd starfsemi færist í almennt skattþrep virðisaukaskatts ásamt því að almenna þrepið lækkar 1. janúar 2019.

Breytingar á að gera á hvaða starfsmenn ríkisins heyri undir kjararáð og þá leggur ráðherrann til hertar aðgerðir gegn skattaundanskotum og svikum.

Einnig stendur til að fella niður ríkisábyrgð á skuldabréfum vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í ráðuneytinu á þriðjudaginn. Hann leggur til tvöföldun kolefnisgjalds til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.vísir/anton brink
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. Tólf mál.

Til stendur að endurflytja frumvarp um heildarendurskoðun núgildandi lyfjalaga með tilliti til stefnumörkunar og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópulöggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Þá stendur til að móta lög og reglur um svokallaðar rafrettur. Með frumvarpi heilbrigðisráðherra verður settur heildstæður rammi um sölu, neyslu og annað tengt rafrettum.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra. Tíu mál.

Stærsta mál menntamálaráðherra er að líkindum frumvarp til nýrra heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 24 mál.

Stefnt er að því að breyta sveitarstjórnarlögum til að afnema skyldu Reykjavíkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í a.m.k. 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar í maí 2018. Frekari breytingar á lögunum eru hugsanlegar í kjölfar vinnu starfshóps um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins.

Með frumvarpi til breytinga á lögum um póstþjónustu á að afnema einkarétt ríkisins á póstþjónustu í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Jafnframt þarf að tryggja aðgang aðila að lágmarkspóstþjónustu.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra..vísir/pjetur
Þá er á að fara fram heildarendurskoðun á umferðarlögum til að auka umferðaröryggi með því að færa ákvæði eldri laga í nútímalegra horf, búa til lagabálk sem er ítarlegri og skilvirkari en gildandi umferðarlög, skýra óskýr ákvæði laganna og hafa við þá vinnu öryggissjónarmið og bætta umferðarmenningu að leiðarljósi. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í desember.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ellefu mál.

Ráðherrann leggur meðal annars til breytingar á byggðakvóta og þá er ætlunin að leggja til frumvarp um lagaumhverfi fiskeldis eftir að skoðun á tillögum starfshóps lýkur.

Þá stendur til að endurskoða lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins í heild sinni.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. Átján mál.

Á þingmálaskrá umhverfisráðherra er meðal annars þingsályktunartillaga um vernd og nýtingu landsvæða. Um er að ræða endurflutta tillögu frá síðasta þingi sem byggist á tillögum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem skilað var til ráðherra í september í fyrra.

Björt Ólafsdóttir og samherji hennar úr Bjartri framtíð, Óttar Proppé.Vísir/Vilhelm
Þá hyggst ráðherrann leggja fram svonefnda hvítbók um náttúruauðlindir Íslands í febrúar. Áætlað er að skýrslan nýtist til að auka skilning á þeim náttúruauðlindum sem Ísland býr yfir og styrki forsendur fyrir ákvarðanatöku um stjórnun, vernd og sjálfbæra nýtingu þeirra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. 25 mál.

Flest málin sem eru á dagskrá utanríkisráðherra eru tillögugur um staðfestingu á breytingum á EES-samningnum sem sameiginleg EES-nefnd tók ákvörðun um.

Á lista ráðherrans er einnig tillaga um að fullgilda umdeildan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Filippseyjar. Samningurinn hefur verið gagnrýndur í ljósi ástands mannréttindamála á eyjunum undir stjórn Rodrigo Duterte, forseta, sem hefur háð blóðugt stríð gegn fíkniefnum í landinu.

Þá leggur utanríkisráðherra til frumvarp til laga um stofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Undir stofnunina myndu falla fjórir skólar sem nú starfa á vegum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þ.e. jarðhita-, sjávarútvegs-, landgræðslu- og jafnréttisskólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×