Körfubolti

Vel tekið á móti Tryggva í gær: Ég labbaði inná og þá var fagnað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Ernir
Tryggvi Snær Hlinason lék sinn fyrsta leik á stórmóti í gær þegar Ísland mætti Grikklandi í fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Helsinki.

Þessi 216 sentímetra og 19 ára gamli miðherji er frábær viðbót við íslenska liðið og það er óhætt að segja að hans sé framtíðin.

„Það var geggjað að spila þennan leik sérstaklega fyrir framan allt þetta fólk. Það var tær snilld að sjá allan þennan fjölda og stemmninguna sem var þarna," sagði Tryggvi.

Hann spilaði alls í tæpar tíu mínútur í leiknum og var með 2 stig, 3 fráköst og 1 varið skot á þeim.

„Við fengum svolítið mikið af sprettum frá þeim í andlitið og þetta var svolítið þannig leikur.Þegar við leyfðum þeim að komast á svona marga spretti og svona lengi þá er erfitt að vinna leik,“ sagði Tryggvi

Tryggvi kom fyrst inná völlinn þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af leiknum og það var vel tekið á móti honum hjá íslensku áhorfendunum sem voru fjölmennir í stúkunni.

„Þetta var magnað. Ég labbaði inná og þá var fagnað. Það var fagnað við hvern einasta hlut sem við gerðum vel. Það er ótrúlegt hvað svona stemmning gerir fyrir okkur,“ sagði Tryggvi og bætti við:

„Það sást í leiknum. Á meðan okkur gekk vel þá var stúkan á fullu og þeagr stúkan var ekki á fullu þá gekk okkur illa. Þetta helst allt í hendur,“ sagði Tryggvi.

Framundan er annar leikur íslenska liðsins á mótinu sem verður á móti Póllandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×