Körfubolti

Brynjar: Geri það sem ég er bestur í

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar í leiknum í dag.
Brynjar í leiknum í dag. vísir/ernir
Brynjar Þór Björnsson, skytta íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að liðið verði að ná að spila meira en bara tuttugu mínútur góðar til að eiga séns í eins gott lið og Frakkar eru.

„Fyrri hálfleikurinn var flottur. Góður kraftur í öllu, mikill hraði og vorum að sækja á þá á fyrstu tempóinu sem gerði það að verkum að við vorum að fá opin skot sem við vorum að setja,” sagði Brynjar Þór í samtali við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann 365 miðla, í höllinni í Helsinki í dag.

„Hittnin var betri, stemningin var meiri og róteringin var aðeins hraðari fyrir vikið. Mér fannst gaman að horfa á þetta í fyrri hálfleik, en eins og í síðustu tveimur leikjum er þriðji leikhlutinn algjörlega að drepa okkur.”

„Við þurfum að ná að minnsta kosti 30 mínútur til að eiga séns í þessi lið,” sagði Brynjar sem kom annan daginn í röð inn á og setti niður þrist:

„Ég reyni alltaf að minna á mig þegar ég kem inn á og geri það sem ég er bestur í; að skjóta körfuna. Það er gaman að fá þetta tækifæri til að spila fyrir framan víkingaklappið og Íslendingana.”

Íslenska liðið er mun lægra en það franska og þá sást bersýnilega í leiknum í dag þar sem Frakkarnir oft á tíðum hlupu bara yfir okkar menn.

„Ég fékk ali-up troðslu i andlitið og Pavel og Hlynur að berjast við menn sem eru 130 kíló. Þetta eru valin nöfn í allar stöður; Euro-League og NBA-leikmenn út í eitt. Það segir sig sjálft að þeir eru betri í körfubolta en við.”

„Þeir eru miklu stærri og lengri en við og maður er bara tittur þarna inn á. Það verður að segjast bara alveg eins og er,” en hvað tekur núna við?

„Núna er að fara bara í ísbað og reyna jafna sig sem mest. Auðvitað verða lappirnar þreyttar og það má ekki gleyma því að flestir leikmennirnir eru tveimur árum eldri en í Berlín 2015 - sérstaklega lykilmennirnir.”

„Það reynir á sjúkraþjálfarateymið og að vera klárir. Einnig er það andlegi þátturinn; að hafa trú á verkefninu. Við gefumst ekki upp og þá gerast góðir hlutir,” en hvað gerir landsliðið á morgun saman í tilefni frídags?

„Við njótum þess að vera saman. Það er alltaf gaman þótt það sé frídagur eða ekki. Við skemmtum okkur vel saman,” sagði Brynjar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×