Körfubolti

Kristín sendiherra: Finnar munu fara mjúkum höndum um Íslendingana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi.
Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi. Vísir/ÓskarÓ
Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Finnlandi, tók vel á móti íslenska hópnum í Sendiherrabúðstaðnum í gærkvöldi.

Kristín hélt þá boð fyrir EuroBaskethópinn, fjölmiðlamenn sem og fulltrúum finnska sambandsins og þeirra þjóða sem keppa við Ísland og Finnland á EM í Helsinki.

Arnar Björnsson greip Kristínu í viðtal og forvitnaðist um það hvernig Finnar munu taka á móti þeim stóra hópi Íslendinga sem er á leiðinni til Helsinki.

„Ég hef ekki nokkrar einustu efasemdir um að Finnar eigi eftir að taka vel á móti Íslendingum og fari um þá mjúkum höndum“, sagði Kristín A Árnadóttir sendiherra Íslands í Finnlandi í viðtalinu við Arnar.

Þarna voru einnig sendiherrar Grikklands og Frakklands auk annarra gesta tengdum mótinu og sendiráðinu. Finnur sendiherrann fyrir góðum straumum frá Finnum til Íslendinga?

 „Alltaf, það var sérstaklega áberandi á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi í fyrra. Finnar tóku víkingaklappið öflugar en mörg okkar gerðu. Sendiráðið hefur átt gott samstarf við marga sem tengjast mótinu og maður finnur að það liggur eitthvað í loftinu,“ sagði Kristín.

Kristín segist reikna með því að Íslendingar fái stuðning Finna þegar liðið spilar við aðrar þjóðir en heimamenn. „Finnar eru sterkir stuðningsmenn Íslendinga,“ sagði Kristín en hún sjálf er á leiðinni á sína fyrstu landsleiki.

„Ég hef ekki farið á völlinn frá því að ég fylgdist með Austra á Eskifirði fyrir 40 eða 50 árum. Ég veit að ég mun smitast af þeim áhuga sem fylgir öllu keppnisfólki,“ sagði Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×